Fréttasafn



2. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Áreiðanleikakönnun ef reiðufé jafngildir 10 þúsund evrum

Að beiðni Skattsins hafa Samtök iðnaðarins vakið athygli félagsmanna sinna á tveimur neðangreindum tilkynningum Skattsins: 

Í ljósi nýlegs fréttaflutnings áréttar embætti ríkisskattstjóra að öllum, sem í atvinnuskyni stunda viðskipti þar sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri, að fjárhæð um 1.650.000 kr. (jafnvirði 10.000 evra, miðað við opinbert viðmiðunargengi hverju sinni), ber skylda að framkvæma áreiðanleikakönnun vegna slíkra viðskipta, sbr. r-lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Í áreiðanleikakönnun felst að viðskiptamenn sanna á sér deili með framvísun skilríkja og að aflað sé upplýsinga um tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta. Nánar er fjallað um framkvæmd áreiðanleikakönnunar í reglugerð nr. 745/2019, um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þá vill Skatturinn einnig vekja athygli félagsmanna á nýrri tilkynningu embættisins vegna áhættusamra og ósamvinnuþýðra ríkja: https://www.rsk.is/fagadilar/peningathvaetti/ahaettusom-riki/.