23. apr. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Arkitektar ganga inn í kjarasamning SA og BHM

Kjaraviðræður samninganefndar Samtaka arkitektastofa, SAMARK, og kjaranefndar Arkitektafélags Íslands hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Hinn 7. apríl sl. gengu Samtök atvinnulífsins frá samkomulagi við Arkitektafélag Íslands um inngöngu félagsins í kjarasamning SA við nokkur aðildarfélög BHM. Samningurinn gildir frá 1. maí en á sama tíma fellur úr gildi kjarasamningur milli Arkitektafélags Íslands og SAMARK.

Með breytingunni eru vinnutímaákvæði arkitekta aðlöguð að vinnutímaákvæðum annars háskólafólks á almennum vinnumarkaði og fáein sérákvæði sem hafa gilt í kjarasamningum arkitekta falla úr gildi á meðan önnur halda sér eða bætast við. Þannig verður vikulegur virkur dagvinnutími arkitekta, miðað við fullt starf, 35,5 stundir. Þá miðast orlofsávinnsla við starfsaldur í stað prófaldurs auk þess sem tveggja ára þrepið í fyrrnefndum kjarasamningi SA við nokkur aðildarfélög BHM fellur út.

SAMARK samþykktu samninginn með um 90% atkvæða á aðalfundi 20. apríl 2021 sem námu tæplega 69% af heildaratkvæðamagni í SAMARK. Kosningu hjá Arkitektafélagi Íslands lauk 19. apríl og var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Kosningaþátttaka var 21%.

Samningurinn felur í sér að SAMARK hefur nú framselt umboð til kjarasamningsgerðar til SA. Hafi félagsmenn SAMARK spurningar í tengslum við samninginn geta þeir leitað til Guðmundar Heiðars Guðmundssonar, lögmanns hjá SA, gudmundur@sa.is.

Hér má nálgast samninginn. 


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.