Árleg norræn ráðstefna ráðgjafarverkfræðinga
Fulltrúar SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga sátu norræna ráðstefnu ráðgjafarverkfræðinga, Rinord, dagana 29.–31. ágúst á Hótel Hafnia í Tórshavn í Færeyjum. Ráðstefnan sem er haldin árlega er vettvangur fyrir ráðgjafarverkfræðinga til að efla samstarf milli Norðurlanda og deila reynslu og upplýsingum um sameiginlegar áskoranir. Í ár var áhersla lögð á umræðu um stöðu og framtíð greinarinnar í samhengi við þjóðfélagsþróun, auk þess sem tæknileg verkefni og áskoranir voru skoðaðar. Það voru Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Hjörtur Sigurðsson, formaður Félags ráðgjafaverkfræðinga, sem sátu ráðstefnuna. Hjörtur er þriðji frá vinstri á myndinni hér fyrir ofan.
Á ráðstefnunni kynntu fulltrúar frá hverju landi stöðu ráðgjafarmarkaðarins í sínum heimaríkjum. Einnig var fjallað um alþjóðleg áhrif á greinina, einkum tengd Evrópusambandinu og framtíð EFCA (Evrópusamtök ráðgjafaverkfræðinga). Sue Arundale, framkvæmdastjóri EFCA, hélt fyrirlestur þar sem hún ræddi möguleika á auknum áhrifum EFCA á reglugerðir ESB. Þema ráðstefnunnar var „Viðnámsþróttur, landafræði og öryggi“, þar sem áhersla var lögð á að ræða hvernig ráðgjafarfyrirtæki á Norðurlöndum geta tekist á við núverandi áhættuþætti. Umræður snérust um sameiginlegar aðgerðir og hvernig samtökin geta betur stutt fyrirtæki sín í þessu áskoranakennda umhverfi.
Á vinnustofu, sem fór fram sama dag, var dýpra kafað í áskoranir tengdar geopólitík, viðnámsþrótti og öryggismálum. Þar voru settar fram hugmyndir um hvernig samtökin geta stutt meðlimi sína við að bregðast við núverandi ástandi, meðal annars með aukinni þekkingu á varnarmálum og fjárfestingaráætlunum og einföldun á öryggisleyfisferlum. Einnig var rætt um sameiginlegar aðgerðir á Norðurlöndunum, eins og að útbúa skýrslu um viðnámsþrótt borgaralegs samfélags á Norðurlöndum og samstarf við alþjóðlegar stofnanir eins og NATO. Markmiðið var að efla samstarf og tryggja betri undirbúning fyrirtækja sem veita þurfa ráðgjöf þegar óvissa ber að garði.
Jafnframt var fjallað sérstaklega um tækniþróun og verkfræðileg viðfangsefni í Færeyjum, þar sem Pætur Jakobsen frá SMJ flutti erindi um áskoranir og stöðu markaðarins þar.
Þá heimsóttu þátttakendur ráðstefnunnar nýframkvæmdir, þar á meðal ný jarðgöng og opinber mannvirki í Færeyjum.
Á næsta ári fer Rinord ráðstefnan fram í Finnlandi.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, er önnur frá hægri og Hjörtur Sigurðsson er þriðji frá hægri í neðstu röð.