Fréttasafn4. apr. 2016 Almennar fréttir

Ársfundur SA

 Ársfundur atvinnulífsins verður haldinn fimmtudaginn 7. apríl í Hörpu. Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni er yfirskrift fundarins. Fundargestir fá nýtt rit Samtaka atvinnulífsins um peningastefnu Íslands en mikill áhugi er á fundinum og því vissara fyrir áhugasama að skrá sig sem fyrst og tryggja sér sæti. 

Venju samkvæmt munu formaður Samtaka atvinnulífsins, Björgólfur Jóhannsson, og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ávarpa fundinn en að þessu sinni flytur Már Guðmundsson, seðlabankastjóri einnig erindi og segir frá því hvað Seðlabanki Íslands er að hugsa.

Sérstakur gestur fundarins er Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics. Jón mun í erindi sínu fjalla um framtíðarríkið Ísland, peningastefnuna, vinnumarkaðinn og ríkisfjármálin. 

Fjölbreyttur hópur stjórnenda leggur einnig orð í belg um peningamálin og starfsumhverfið, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor, Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, Björg Ingadóttir fatahönnuður  í Spakmannsspjörum, Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins og Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri G.RUN. 

Þá munu Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, Ásgeir Jónsson, forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA bregðast við því sem fram kemur á fundinum. 

Fundarstjóri er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu

Ársfundurinn er frá kl. 14-16 en að loknum fundi kl. 16-17 fer fram Netagerð við höfnina með tónlist og tilheyrandi. Futuregrapher reiðir fram nætursaltaða raftónlist og matgæðingar Hörpu sjá til þess að gleðja bragðlaukana með viðeigandi kræsingum.

SKRÁNING HÉR