Fréttasafn30. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Ársfundur Samtaka alþjóðlegra kvikmyndaframleiðenda

Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, á iðnaðar- og hugverkasviði SI, sótti nýverið ársfund FIAPF sem eru Samtök alþjóðlegra kvikmyndaframleiðenda, í Cannes dagana 19.-21. maí sl. Til umræðu voru m.a. vinnuumhverfi og öryggi við kvikmyndaframleiðslu, aukin áhersla á fjölbreytta framleiðslu og dreifingarleiðir kvikmynda og sjónvarpsþátta, sjálfbærnistefna aðildarsamtaka, tækniþróun og áhrif gervigreindar á höfundarrétt ásamt kjarasamningsmálum.

Fulltrúum aðildarsamtaka var síðar skipt í vinnuhópa þar sem Lilja Björk tók þátt í „EU working group on industrial relations“ en þar var fjallað um sérhæfð hagsmunamál innan Evrópusambandsins/EES, m.a. innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins er varðar sanngjarna hlutfallslega þóknun til listflytjenda (DSM tilskipunin), gjaldtöku á streymisveitur (AVMS tilskipunin) ásamt stuðningi við framleiðslu á evrópsku kvikmynda- og sjónvarpsefni. 

Fulltrúar á ársfundi FIAPF í Cannes, Lilja Björk Guðmundsdóttir er önnur í fjórðu röð frá vinstri.