Fréttasafn18. mar. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Askur úthlutar 95 milljónum í mannvirkjarannsóknir

Fyrsta úthlutun úr mannvirkjarannsóknasjóðnum Aski fór fram í gær í Veröld en sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og umsýsla er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS. Sjóðurinn var stofnaður í fyrra og bárust fjörutíu umsóknir samtals að upphæð 452 milljónir króna en úthlutun nam 95 milljónum króna. Sérstakt fagráð var skipað til að meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Styrkir eru veittir í fimm flokkum. Áherslur sjóðsins í úthlutuninni sneru einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Loftslagsmál eru áberandi í öllum flokkum úthlutunar og verkefnin eiga það nánast öll sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt.

Á vef HMS kemur fram að byggingariðnaðurinn sé talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu og geti því spilað stórt hlutverk einn og sér í að taka á framtíðaráskorunum tengdum loftslagsmálum. Þetta kvíslast niður í allar greinar byggingariðnaðarins eins og umsóknir verkefni sem hljóta styrk úr Aski - mannvirkjarannsóknarsjóði bera með sér.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Það er í allra þágu og þjóðhagslega hagkvæmt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Við viljum efla íslenskt hugvit á þessu sviði og fá fram hugmyndir um notkun íslenskra hráefna í byggingariðnaði, en þar má nefna sandinn okkar, hampinn og skógana. Jafn mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna.“ 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: “Þau fjölbreyttu verkefni sem fá styrk úr sjóðnum eru til vitnis um mikla grósku í rannsóknum og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar hér á landi um þessar mundir. Framfarir á þessu sviði kalla á öflugt samstarf mismunandi aðila, ekki aðeins innan stjórnsýslunnar heldur ekki síður milli háskólasamfélags og atvinnulífs. Það er von okkar að Askur verði til að efla slíkt samstarf.“ 

Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Fjölbreyttar umsóknir í Askinn bera vitni um mikla grósku og hugmyndaauðgi í íslenskum byggingariðnaði. Jafnframt staðfesta þær hina miklu þörf fyrir auknum stuðningi fyrir byggingarrannsóknir. Við hjá HMS hlökkum til að taka þátt í að efla nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi mannvirkjageirans enn frekar.“ 

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um verkefnin sem hlutu styrki.