Fréttasafn23. sep. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Átakið Allir vinna vel heppnað

Í umfjöllun Kjarnans um fjórföldun á endurgreiðsluumsóknum vegna virðisaukaskatts við framkvæmdir er vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, sem segir í viðtali við Kjarnann að átakið Allir vinna hafi verið einstaklega vel heppnað. „Það dregur úr svartri atvinnustarfsemi sem er mjög jákvætt og skapar hvata til umsvifa. Þetta hefur sannarlega skilað góðum árangri, við finnum það á samtölum við okkar félagsmenn að það er mjög mikið að gera – það er mjög mikið að gera til áramóta, þegar úrræðið fellur úr gildi.“ Hann segir það blasa við að það verði að framlengja úrræðið „að minnsta kosti út næsta ár ef vel á að vera.“ Sigurður sagðist þó hafa skilning á því að stjórnvöld hafi ákveðið að hafa úrræðið svona tímabundið til að byrja með, til að skapa rétta hvata til að ráðast í framkvæmdir.

Í Kjarnanum kemur fram að endurgreiðslurnar sem voru hækkaðar tímabundið úr 60% í 100% vegna COVID-19 nemi 12 milljörðum króna vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna nýbygginga eða endurbóta á íbúðarhúsnæði, bílaviðgerða, heimilishjálpar eða -þrifa það sem af sé ári. 100% endurgreiðsluhlutfallið sem tók gildi 1. mars stendur út þetta ár og það hafi skilað þessari miklu aukningu á endurgreiðslum. Frá janúar hafi borist 18.500 endurgreiðslubeiðnir í samanburði við 6.340 endurgreiðslubeiðnir janúar til ágúst á síðasta ári og fjöldi umsókna hafi því margfaldast á milli ára.

Kjarninn, 21. september 2020.