Fréttasafn



2. okt. 2020 Almennar fréttir Ímynd

Átakið auglýst í sem flestum íslenskum miðlum

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um átaksverkefnið Íslenskt - láttu það ganga en gagnrýni hefur komið fram um birtingar átaksins. Sigurður segist taka heilshugar undir þau sjónarmið sem sett séu fram í grein ritstjóra Víkurfrétta og Skessuhorns. „Það var alveg ljóst frá upphafi hvar okkar hugur stóð sem að verkefninu komum að það yrði auglýst í sem flestum íslenskum miðlum og sem víðast um land. Ég get tekið undir þær áhyggjur sem koma fram hjá Víkurfréttum.“

Sigurður sagði að þeim sjónarmiðum hafi aftur verið komið á framfæri við Brandenburg sem er auglýsingstofa átaksins. „Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að Brandenburg muni bregðast hratt og örugglega við þessu.“ Þegar Sigurður er spurður hvort hann sé búinn að fá svar við þessum tilmælum segir hann ekki eiga von á svari, hann eigi bara von á aðgerðum. „Þessu hefur verið komið vel á framfæri.“

Þá tók Sigurður undir með þáttastjórnendum um að átaksverkefnið væri vel heppnað. „Mér finnst það vera vel heppnað og fara vel af stað. Fljótlega eftir að faraldurinn hófst þá ákváðu stjórnvöld og atvinnulíf að taka höndum saman að fara í svona verkefni. Við getum kallað það vitundarvakningu þar sem almenningur er hvattur til að auka störf oa auka verðmætasköpun með því að skipta við hvert annað.“ Sigurður nefndi að það gæti verið framleiðsla, þjónusta, verslun eða hvað eina. 

Hann er algjörlega sannfærður um að þessi herferð muni skila árangri. „Við höfum séð verkefni af svipuðum toga síðustu áratugina undir ýmsum formerkjum, Veljum íslenskt, Íslenskt já takk og fleiri verkefni og þau hafa yfirleitt og alltaf skilað góðum árangri þannig að ég á ekki von á öðru að svo verði líka núna.“ Sigurður bendir á að átakið geti dregið fram hvaða þjónusta er í boði, hvaða vörur eru framleiddar og hvaða keðjuverkun fer af stað þegar við skiptum við innlend fyrirtæki. 

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.