Fréttasafn17. jan. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Vetnis- og rafeldsneytissamtökin

Atmonia selur tæknilausn til Mið-Austurlanda

Atmonia sem er aðildarfyrirtæki SI hefur gert samning við SABIC AN um einkaréttarkaup á notkun tækni Atmonia til framleiðslu á sjálfbæru ammoníaki í Saudi-Arabíu, Bahrein, Kúveit og Óman. Atmonia er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki með byltingarkennda vöru í þróun sem framleiðir ammoníak á sjálfbæran hátt. Markmið Atmonia er að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýrri tækni á sviði ammóníak- og nítratframleiðslu.

Í fréttatilkynningu segir að SABIC sé alþjóðlegt efnafyrirtæki með höfuðstöðvar í Riyadh, Saudi-Arabíu sem framleiði fjölbreyttar vörur á stórum skala fyrir Suður- og Norður-Ameríku, Evrópu, Mið-Austurlönd og Asíu, þ.m.t. efnavörur, plastvörur, næringarefni til landbúnaðar og málma. Þar segir að SABIC styðji við sína viðskiptavini með því að leita nýrra tækifæra í mikilvægum greinum, t.a.m. byggingariðnaði, lækningartækjum, pökkun, landbúnaði, raftækjum og sjálfbærri orku. Hagnaður SABIC hafi verið árið 2021  6,15 milljarðar Bandaríkjadala og tekjur 46.6 milljarðar Bandaríkjadala. Eignir SABIC hafi staðið  í 84.9 milljörðum Bandaríkjadala í árslok 2021 og framleiðsla í 58 milljón tonnum. Þá segir í tilkynningunni að tækni Atmonia sé bæði hagkvæm og umhverfisvæn og muni leggja mikið af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Ný tækni Atmonia muni framleiða ammóníak úr lofti og vatni án þess að losa gróðurhúsalofttegundir en núverandi ammóníakframleiðsluaðferð sé ábyrg fyrir 1-2% af koltvísýringslosun af mannavöldum í heiminum.

Munif-Al, Munif, yfirmaður tækniþróunar og nýsköpunar hjá SABIC AN: „Þessi samningur sýnir að SABIC AN er sannfært um að Atmonia muni ná sínum markmiðum og koma vörunni á markað. SABIC AN er staðráðið að beita sér gegn þeirri umhverfisvá sem nú steðjar að með því að framleiða sjálfbæran áburð, en í dag er 1-2% af kolefnisfótspori af mannavöldum í heiminum vegna framleiðslu ammoníaks til notkunar í áburð. Þar að auki lofar sjálfbært ammoníak góðu sem rafeldsneyti og með notkun þess í sjóflutningum væri hægt að minnka kolefnisfótspor heimsins um 3% til viðbótar. Notkun ammoníaks í flugi og til orkuflutninga er einnig að fá aukna athygli. Notkun á sjálfbæru ammoníaki í áburð og sem rafeldsneyti eru því mikilvæg skref í átt að kolefnislausri framtíð”.

Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia: ,,Við erum að þróa efnahvata sem mun gera okkur kleift að framleiða sjálfbært ammóníak úr einungis vatni, nitri andrúmslofsins og grænni orku. Stofnkostnaður við uppsetningu tækninnar verður lágur miðað við núverandi framleiðslutækni og býður varan okkar því upp á lágan framleiðslukostnað á ammóníaki ef orkan sem er notuð er ódýr, t.a.m. frá vel staðsettum sólarorkugörðum. Tæknin sem við erum með í þróun framleiðir ammóníakið við staðalaðstæður (herbergishita og staðalþrýsting), svo það er ódýrt að kveikja og slökkva og hentar því mjög vel til að taka við raforku sem verður til óreglulega, t.a.m. sólar- og vindorka. Tækni Atmonia hentar einnig vel til framleiðslu í litlum einingum, t.d. á býli eða við hafnir, en núverandi framleiðsla verður að fara fram í risastórum verksmiðjum til að vera hagkvæm. Miklum framförum var náð í vöruþróun Atmonia á síðasta ári og sala á einkaréttinum til SABIC AN eykur fjárhagslegt svigrúm til frekari þróunarvinnu. Atmonia er einnig að hefja fjármögnunarferli til að hraða vöruþróun enn frekar, en fyrirtækið finnur fyrir mjög mikilli eftirspurn eftir vörunni, þrátt fyrir að hún sé enn í þróun”.