Fréttasafn28. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Átökin áminning um mikilvægi sjálfstæðis í orkumálum

Rússneska þjóðin er ekki það sama og rússnesk stjórnvöld. Það verður að gera greinarmun þar á. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í þættinum Fréttir vikunnar á Hringbraut þar sem Elín Hirst ræðir við Sigurð og Ásgeir Brynjar Torfason, efnahagsráðgjafa. Til umræðu í þættinum er meðal annars stríðið í Úkraínu, salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka og sýningin Verk og vit.

Sigurður segir í þættinum að við flytjum inn olíu í stórum stíl og brennum til verðmætasköpunar. „Það eru auðvitað mikil tækifæri fyrir okkur hér á landi  og stefna stjórnvalda er auðvitað sú að verða sjálfbær og jafnframt sjálfstæð í orkumálum með því að ná kolefnishlutleysi en líka með því að verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Þarna er auðvitað til mikils að vinna og þessi átök sem við erum að sjá núna í Austur-Evrópu er  góð áminning hvað það skiptir miklu máli að vera sjálfstæð í orkumálum.“

Sigurður segir jafnframt að þróun sem sé að verða í heiminum sé að auka vægi hreinna orkugjafa en um leið að byggja upp meiri orkuöflun í nærmörkuðum í Evrópu og hjá okkur. Hann segir mjög lítið brot af raforku sem framleidd sé á Íslandi fara í rafmyntagröft. „Staðreynd máls sé að 80% af útflutningi á Íslandi sé orkuháð. Við flytjum inn olíu og brennum til að veiða fiskinn í sjónum og til þess að koma ferðamönnunum til landsins og þeir ferðast svo á milli staða og svo framvegis. Tækifærið er ekki að draga úr verðmætasköpun, tækifærið er það að skipta þessari óhreinu orku yfir í hreina orku og ná þannig fram markmiðum okkar og til þess er bara ein leið og það er að virkja.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á þáttinn.