Fréttasafn



8. des. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Átta fundir um þróun íbúðamarkaðar

Fulltrúar SI fluttu erindi á átta fundum sem haldnir voru víða um land þar sem fjallað var um atvinnuuppbyggingu og þróun íbúðamarkaðar en Samtök iðnaðarins voru meðal þeirra sem stóðu fyrir fundunum ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Byggðastofnun, HVIN (Lóa-nýsköpunarstyrkir) og atvinnuþróunarfélög viðkomandi svæða. Fundirnir voru haldnir á Sauðárkróki, Húsavík, Borgarnesi, Selfossi, Ísafirði, Hornafirði, Egilsstöðum og Reykjanesbæ. Myndin hér fyrir ofan er tekin á fundinum á Húsavík.

Vel var mætt á alla fundina og sköpuðust góðar umræður bæði á fundinum sjálfum og ekki síður eftir fundi en á öllum stöðunum var boðið upp á slíkt spjall. Eftirtaldir starfsmenn SI voru með fyrirlestur sem bar yfirskriftina „Aukum hagkvæmni og skilvirkni í íbúðaruppbyggingu“: Friðrik Ágúst Ólafsson, Bjartmar Steinn Guðjónsson og Elísa Arnarsdóttir. 

Hér er hægt að nálgast glærur SI.

Elmar Erlendsson hjá HMS kynnti niðurstöðu nýjustu talningar íbúða í byggingu, hvernig niðurstaða talningar fellur að húsnæðisáætlana sveitafélaga sem segir að byggja þurfi mikið meira á öllum stöðum ef áætlanir eigi að nást. Einnig kynnti HMS hvaða úrræði eru í boði fyrir húsbyggendur t.d. hlutdeildarlán, stofnframlög, landsbyggðarlán HMS, sérstakt byggðarframlag, leigufélagið Bríet og leiguíbúðarlán HMS (sjá tryggdbyggd.is).

Hugrún Ýr Sigurðardóttir hjá HMS kynnti drög að nýrri mannvirkjaskrá þar sem verið er að vinna að því að „einn ferill mannvirkjamála“ verði að veruleika. Í þessari nýju mannvirkjaskrá er verið að horfa til „aukinnar skilvirkni með notendavænni umsóknarferlum, bættri þjónustu, einfaldari stjórnsýslu og samræmdara verklagi“. Um er að ræða vettvang til að sækja um byggingarleyfi, skila inn hönnunargögnum, þar sem hönnunargögn eru yfirfarin og samþykkt, allt á einum stað og allir vinni eins hvar sem er á landinu.

Fulltrúar Byggðastofnunar kynntu hvert verksvið stofnunarinnar er og til hvaða verkefna Byggðastofnun væri að veita hin ýmsu lán. Í kynningu Byggðastofnunar var einnig fjallað um þróunarverkefni sem koma á borð þeirra.

Fulltrúi HVIN kynnti Lóa-Nýsköpunarstyrki, hvert hlutverkið er, hverjir geta sótt í hann og hvernig skal standa að því að sækja um. Í kynningunni kom meðal annars fram að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Upplýst var að tæp 200 verkefni hafi nú þegar fengið styrk úr Lóu á árunum 2022 og 2023.

Atvinnuþróunarfélögin á hverjum stað fjölluðu um hlutverk og markmið sín. Hjá þeim kom fram að sérstök áhersla er lögð á svokallaðar „brothættar byggðir“. Á öllum stöðunum kom fram að gríðarleg vöntun er á húsnæði, bæði skammtíma- og framtíðarhúsnæði. Í dag eiga fyrirtæki erfitt með að stækka og þróast vegna þessarar vöntunar á húsnæði. Þá fóru atvinnuþróunarfélögin yfir ýmis tækifæri sem þau sjá á sínum svæðum.

20231115_121010

20231115_120949

20231115_122559

Fundur-21-11-2023

Husavik1

Isafjordur-16-11-2023

Husavik3

Austurfrétt, 4. desember 2023.