Fréttasafn



22. okt. 2015 Menntun

Áttin - ný vefgátt

 Áttin - ný vefgátt sem auðveldar fyrirtækjum að sækja um styrki til starfsmenntasjóða og fræðslustofnana verður opnuð í nóvember. Áttin er sameiginlegt verkefni atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði. 

Fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins hafa lengi óskað eftir einfaldara kerfi til að sækja um styrki til starfsmenntunar. Fyrirtæki þar sem starfsmannahópurinn er fjölbreyttur og greitt er af í mismunandi stéttarfélög, hafa hingað til þurft að sækja til margra sjóða og fræðslustofnana um styrki. Héðan í frá eiga þau að geta sótt um styrki fyrir nær allt sitt fólk með aðeins einni umsókn.

Áttin var kynnt á fjölmennum fundi stjórnenda í Húsi atvinnulífsins í vikunni en hún verður jafnframt kynnt á fundum um land allt í nóvember. Fundirnir eru liður í kynningarátaki SA og ASÍ um sjóðina og þjónustu þeirra við atvinnulífið en óhætt er að segja að Áttin hafi hlotið glimrandi móttökur meðal stjórnenda sem lögðu leið sína á fyrsta kynningarfundinn.

Í Áttinni hægt að sækja um styrki til eftirfarandi starfsmenntasjóða,  Starfsafls, Landsmenntar, Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóðs verslunarinnar, Menntasjóðs rafiðnaðarins, IÐUNNAR fræðsluseturs og Menntasjóðs Verkstjórasambandsins.  Ætla má að sjóðirnir nái til um 75-80% starfsmanna á almennum vinnumarkaði eða um 110-120 þúsund manns. 

Fyrirtæki greiða sérstakt starfsmenntaiðgjald í starfsmenntasjóði af launum starfsfólks en hægt er að sækja um lækkun gjaldsins vegna eigin fræðslustarfs. Einnig geta fyrirtæki sótt um að fá fræðslustjóra að láni inn í fyrirtækið. 

Stjórnendur fyrirtækja og mannauðsstjórar eru hvattir til að kynna sér Áttina ( www.attin.is ) og senda ábendingar til Sveins Aðalsteinssonar verkefnisstjóra Áttinnar ( sveinn@attin.is ) ef þeir telja að eitthvað megi betur fara.  Ennfremur er velkomið að hafa  samband til að fá fá Svein í heimsókn til að kynna Áttina. 

Áttin er í lokaþróun og hefur ekki opnað formlega en hægt er að skoða vefinn eins og hann er í dag og grunnvirkni hans. Gert er ráð fyrir að Áttin opni í byrjun nóvember  og þá verður hægt að senda inn styrkbeiðnir. Hægt er óska eftir styrk vegna fræðslustarfs allt að 12 mánuði aftur í tímann.