Fréttasafn



10. nóv. 2016 Almennar fréttir

Atvinnulífið búi sig undir breytingar á afstöðu Bandaríkjanna til viðskipta milli landa

Í kjölfar óvæntra úrslita í forsetakosningunum í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump sigraði velta margir vöngum yfir áhrifum þess á Ísland að Trump setjist í forsetastólinn. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir í Viðskiptablaðinu í dag mikilvægt að við búum okkur undir að það gæti orðið breyting á afstöðu Bandaríkjanna til fríverslunar og liðleika í hvers konar viðskiptum milli landanna. Í viðtalinu segir hann að vissulega hafi Ísland töluverða hagsmuni af útflutningi til Bandaríkjanna sem og af alþjóðlegri starfsemi þar sem Íslendingar hafi náð ágætri fótfestu. „Það er kannski engin ástæða til að hafa rosalegar áhyggjur en ég tel þó mikilvægt að bæði við í atvinnulífinu sem og stjórnvöld þurfi að teikna ástandið vel upp og vera reiðubúin fyrir næstu skref. Bjartsýni hlutinn af mér minntist þess þó þegar úrslitin lágu fyrir að það er nú líka þing í Bandaríkjunum sem hefur nokkurt mótvægi við forsetann. Og þó að ráðandi öfl séu vissulega úr sama stjórnmálaflokki og Donald Trump tilheyrir þá eru nú nokkuð frjálslyndari viðhorf innan þingsins til alþjóðaviðskipta en þau sem hann hefur sýnt af sér.“ Þá segir Almar að til skemmri tíma litið telji hann ljóst að það verði engin U-beygja hvað þessi mál varðar en að einhver beygja af hálfu Bandaríkjanna gæti nálgast og undir það þurfum við að vera búin.