Fréttasafn24. jún. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Atvinnulífið nálgast loftslagsvandann á ábyrgan hátt

Í Loftslagsvegvísi atvinnulífsins er m.a. að finna ýmis hagnýt ráð og leiðir sem geta hjálpað til við að ná árangri svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika. Í tilkynningu segir að vegvísirinn sé gerður að frumkvæði atvinnulífsins og sýni mikinn vilja og áhuga þeirra fjölmörgu samtaka sem standa að honum. Að útgáfunni standa sjö hagsmunasamtök auk Grænvangs. Samtökin eru Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands.

Loftslagsvegvísirinn var kynntur í beinu streymi frá Húsi atvinnulífsins í gær og fluttu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, ávörp. Á viðburðinn mættu auk forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Í tilkynningu er haft eftir Katrínu: „Útgáfan nú er fyrsta skrefið sameiginlegri vegferð atvinnulífsins í loftslagsmálum sem getur stutt vel við aðgerðaráætlun stjórnvalda. Mikilvægt er að við byggjum á þessari góðu vinnu og höldum áfram í næsta áfanga.“

Í tilkynningunni er haft eftir Sigurði: „Útgáfa skýrslunnar markar ákveðin tímamót og staðfestir að atvinnulífið leggur allt kapp á að nálgast loftslagsvandann á ábyrgan og lausnamiðaðan hátt. Markmiði stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verður ekki náð nema með nánu samstarfi atvinnulífsins og stjórnvalda. Hjá atvinnulífinu verða til grænar lausnir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en á sama tíma þurfa stjórnvöld að ryðja hindrunum úr vegi, hlúa að starfsskilyrðum og fjárhagslegum hvötum til að örva slíka nýsköpun og tækniframfarir auk þess að hvetja til fjárfestinga. Með slíku uppbyggilegu samstarfi og jákvæðum hvötum náum við árangri í loftslagsmálum.“

Hér er hægt að nálgast Loftslagsvegvísi atvinnulífsins.

Hér er hægt að nálgast fleiri myndir á Facebook.

Mynd/Birgir Ísleifur.

Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs.

Hér er hægt að nálgast upptöku af streyminu:

https://vimeo.com/566105526

 

Graenvangur_hyl_23062021-21Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI.

Graenvangur_hyl_23062021-23Fulltrúar þeirra sem stóðu að gerð Loftslagsvegvísi atvinnulífsins.


RÚV, 23. júní 2021.