Atvinnustefna vísar veginn inn í framtíðina
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, er meðal viðmælenda í þættinum Synir Egils á Samstöðinni ásamt Guðrúnu Johnsen, prófessor og deildarforseta viðskiptadeildar á Bifröst, og Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélagsins. Þáttastjórnendurnir Sigurjón Magnús og Gunnar Smári Egilssynir ræða við þær um stöðu fjölmiðla á Íslandi, húsnæðismarkaðinn, atvinnustefnu og fleira.
Sigríður segir meðal annars að búið sé að birta drög að atvinnustefnu af hálfu stjórnvalda og að Samtök iðnaðarins bindi vonir við þá vinnu. Hún segir að það mætti halda af umræðunni að þetta væri handstýring ríkisvaldsins á því hvers konar fyrirtæki verði til, blómstri eða vaxi en það sé alls ekki þannig. Í öllum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við sé einhverskonar iðnaðar- eða atvinnustefna (e. industrial policy) sem vísar veginn inn í framtíðina. Hvort sem okkur líki það betur eða verra þá hafi ákvarðanir ríkisvaldsins sem teknar séu á Alþingi og inn í ráðuneytum áhrif á atvinnurekstur alla daga.
Hér er hægt að horfa á þáttinn.
Samstöðin, 2. desember 2025.

