Fréttasafn



12. sep. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Auka framboð af lóðum og auka hlutdeildarlán

Samtök iðnaðarins, SI, og Samtök atvinnulífsins, SA, hafa sent umsögn um hvítbók um húsnæðismál , mál nr. 139/2023, til innviðaráðuneytisins. Í umsögninni segir að samtökin fagni framlagðri hvítbók og telji hana geta stuðlað að miklum framförum í húnsæðismálum en vilji þó koma á framfæri athugasemdum er varði bæði meginmarkmið hennar en einnig einstaka aðgerðir. 

Auka framboð af lóðum og auka áherslu á nýtingu hlutdeildarlána

Í umsögninni segir meðal annars að skattahækkanir og auknar álögur muni hafa neikvæð áhrif á fyrirtæki í byggingar- og mannvirkjagerð og því vilji samtökin hvetja stjórnvöld til að skapa gott og skilvirkt starfsumhverfi auk þess að auka framboð af lóðum til að mæta eftirspurn eftir húsnæði. Einnig kemur fram í umsögninni að við notkun á verkfærum stjórnvalda, sem sé ætlað að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og sett hafi verið fram í rammasamningi stjórnvalda og sveitarfélaga, hafi stjórnvöld lagt megináherslu á að styðja fjárhagslega við uppbyggingu á leiguhúsnæði á meðan meginþorri landsmanna kjósi að búa í eigin húsnæði. Þá segir að það sé mikilvægt að stjórnvöld tryggi betur jafnvægi, við nýtingu opinbers fjármagns, í uppbyggingu leiguhúsnæðis og uppbyggingu íbúða fyrir séreignarmarkað, í takti við þarfir og vilja landsmanna. Í því felist alls ekki að samtökin vilja að stjórnvöld dragi úr stuðningi sínum við þá sem höllum fæti standi á íbúðamarkaði heldur að lögð sé áhersla á að hjálpa þeim sem það vilja og geti með stuðningi eignast sitt eigið húsnæði. Samtökin telji í því samhengi að auka eigi áherslu á nýtingu hlutdeildarlána, við uppbyggingu á húsnæði fyrir tekju- og eignaminni hópa.

Hér er hægt að nálgast umsögnina.