Fréttasafn17. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Auka þarf græna orkuframleiðslu til að ná fullum orkuskiptum

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í Markaðnum á Hringbraut ásamt Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, um nýútkomna skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum í ljósi loftslagsmarkmiða stjórnvalda. Þar segir Sigríður að 80% af útflutningi Íslands byggi á orkunýtingu. Annars vegar sé um að ræða orkusækinn iðnað sem nýti græna orku og hins vegar ferðaþjónustu og sjávarútveg sem nýti jarðefniseldsneyti. 

Ekki dregið úr orkusæknum iðnaði fyrir orkuskipti

Í umfjöllun Fréttablaðsins um þáttinn er haft eftir Sigríði að ef ná eigi markmiðum um full orkuskipti meðal annars í flugi og á skipum ásamt því að viðhalda öflugum útflutningi þurfi orkuframleiðsla að aukast um 120-125% fyrir árin 2040 eða 2050, eftir því hvernig á málið sé litið, samkvæmt skýrslunni. Hún bendir á að góð lífskjör hér á landi byggi á útflutningi og er stærsti hlutinn af aukinni orku sem framleiða þurfi vegna þess að hætta eigi að nota jarðefnaeldsneyti og nýta þess í stað græna orku. Í viðtalinu kemur fram að Sigríði finnst ekki koma til greina að draga úr umsvifum orkusækins iðnaðar til að heimili og önnur fyrirtæki geti nýtt orkuna í orkuskipti.

Þá kemur fram að Sigríður segir í þættinum að hin Norðurlöndin og Evrópusambandsríki stefni á að margfalda sína grænu orkuframleiðslu. Hún segir að við megum ekki láta það gerast að ekki hafi tekist að ná markmiðum í loftslagsmálum vegna þess að ekki hafi verið vilji til að fara í frekari orkuvinnslu. 

Jafnvægis gætt milli verndar og nýtingar náttúrunnar

Jafnframt segir Sigríður að í svipmynd Eflu og Samorku sem hafi verið mest í umræðunni hvað varðar orkuþörf hafi verið gert ráð fyrir breyttu neyslumynstri, fjölbreyttari ferðamátum og borgarlínu, orkusparnaði, bættri orkunýtingu vegna tækniþróunar og svo framvegis. „Ég er ósammála því að við séum að fórna íslenskri náttúru,“ segir hún og nefnir að rammaáætlun sé til staðar til að tryggja að jafnvægis sé gætt á milli verndar og nýtingar náttúrunnar. Sigríður segir að rammaáætlunin hafi ekki gagnast vel að undanförnu því hún hafi verið föst í þinginu. „Við værum ekki að sjá þessa miklu aukningu í raforkuframleiðslu ef rammaáætlunin hefði rúllað í gegnum þingið jafnt og þétt.“ Hún tekur undir að skoða eigi aðra valkosti áður en virkjað sé, eins og að stækka núverandi virkjanir og bæta orkunýtingu.

Hér er hægt að nálgast sjónvarpsþátt Markaðarins á Hringbraut þar sem rætt er við Sigríði.

Fréttablaðið, 17. mars 2022. 

Frettabladid-17-03-2022