Fréttasafn12. des. 2017 Almennar fréttir Menntun

Aukið fé til að efla iðn- og verknám

„Það sem við erum að leggja áherslu á í þessum stjórnarsáttmála er að við ætlum að efla iðn- og verknám. Staðreyndin er sú að við erum að útskrifa mun færri úr þessum greinum en til að mynda Noregur og það er mikill munur þar á.“ Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgunni fyrir skömmu. 

„Eitt af því sem ég er að leggja mikla áherslu á er að fá skýringar á því hvers vegna er þessi munur,“ segir Lilja og vísar í að á Íslandi sé verið að útskrifa úr starfs- og iðnnámi í kringum 12% í samanburði við við 40% í Noregi. Hún segir í viðtalinu hafa óskað eftir því í ráðuneytinu að fá upplýsingar um hvers vegna þetta sé svona og hvernig hægt sé að bæta stöðu iðnnáms og verknnáms. „Við munum sjá merki þess í nýju fjárlagafrumvarpi þar sem við munum setja aukið fé á framhaldsskólastigið gagngert til þess að efla þessa þætti.“

Vantar frekari kynningu á möguleikum sem felast í iðn- og verknámi

Lilja-AlfredsdottirÞegar Lilja er spurð út í hvað hún telji að ráði því að þetta hafi þróast í þessa átt segist hún hafa heyrt að foreldrar hafi verið að beina börnum sínum frekar inn á það að klára stúdentsprófið svo að þau loki ekki einhverjum leiðum í framtíðinni ef þau vilja til að mynda fara í háskólanám seinna meir. „Ég veit að það er verið að þróa leiðir til þess að loka ekki fyrir svona möguleika. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Eins held ég jafnvel að það vanti frekari kynningu á þeim möguleikum sem felast í þessu námi. Ég held að það sé það sem við þurfum að vera að einblína á á næstu misserum ef við ætlum ekki að missa ákveðna þekkingu úr landinu.“

Hún segir að fréttir af því að enginn með iðnmenntun komi að stórum verkum komi niður á gæðum. „Þetta varðar ekki bara menntamálin heldur varðar einnig hvernig við erum að fara í hlutina og hvort við séum að vanda til verks eða ekki.“

Vill meira samstarf við atvinnulífið

Lilja telur að það tengist saman brotthvarf úr námi á framhaldsskólastiginu og hversu fáir fara í iðn- og verknám. „Ég er búin að óska eftir því, og þeir ráðherrar sem hafa verið á undan mér hafa verið að skoða það, hvers vegna er meira brotthvarf úr námi á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Ég á von á stöðuskýrslu á næstu vikum. Ég tel að það sé ákveðið samhengi þarna á milli.“ Hún segir að  kannski sé ástæðan að unga fólkið okkar sé ekki að finna sig nægilega vel í menntakerfinu.

„Eitt af því sem við erum að einblína á er meira samstarf við atvinnulífið því það er mikill skortur eftir ákveðinni menntun í atvinnulífinu. Þá þurfum við sem berum ábyrgð á stefnumótun að huga að því og leita leiða til þess að mæta þeirri þörf. Og líka að sjá af hverju þessi munur er á okkur og hinum Norðurlöndunum.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Lilju í heild sinni í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.