Fréttasafn



3. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Aukið framboð á fullbúnum íbúðum framundan

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um nýja talningu Samtaka iðnaðarins þar sem kemur fram að íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 18% frá því í mars. Samkvæmt talningu SI eru núna 4.854 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, eða 752 fleiri en þegar samtökin gerðu síðast talningu á íbúðum í mars. Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI sem segir þetta aukningu frá síðustu talningu og það sé ánægjulegt að sjá. „Þetta endurspeglast í öðrum tölum; fjölda launþega í greininni og þætti hennar í landsframleiðslu og svo framvegis,“ segir Ingólfur en 12.600 launþegar störfuðu innan greinarinnar á síðasta ári samanborið við 7.200 árið 2012. „Miðað við þessa talningu og spá Samtaka iðnaðarins sem grundvallast á talningunni þá er aukið framboð á fullbúnum íbúðum framundan. Við erum að sjá einhvern vöxt næstu tvö árin en það er að hægja á vextinum frá því sem við höfum verið að sjá,“ segir Ingólfur. Íbúðir í byggingu eru nú 5,6% af heildarfjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu í ársbyrjun þessa árs en hlutfallið var 4,7% í mars. 

Hæst hlutfall nýbygging í Mosfellsbæ

Í fréttinni segir að hlutfall nýbygginga af heildarfjölda íbúðarhúsnæðis sé hæst í Mosfellsbæ. Þar sé 541 íbúð í byggingu og hlutfallið 15,1% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu í ársbyrjun. Næst hæst sé hlutfallið í Garðabæ þar sem 651 íbúð er í byggingu, eða 11,7%, og í Kópavogi séu íbúðirnar 1.161 og hlutfallið 8,8%. Reykjavík, Hafnarfjörður og Seltjarnarnes séu undir meðaltali höfuðborgarsvæðisins. Í Reykjavík sé hlutfallið 4,5 prósent af heildarfjölda íbúða en þar séu 2.355 íbúðir í byggingu, ríflega 49 prósent allra íbúða sem séu í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði séu í byggingu 1,2% af heildarfjölda íbúða í sveitarfélaginu, 122 íbúðir, og á Seltjarnarnesi séu 15 íbúðir í byggingu sem sé 0,9% af heildarfjölda íbúða. 

Flestar íbúðirnar eru í fjölbýli

Í fréttinni kemur fram að af íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt talningu SI séu flestar í fjölbýli eða um 4.466 og hefur þeim fjölgað frá því í mars um 771 eða um 21%. Á sama tíma hefur sérbýli í byggingu fækkað um fimm prósent og eru þau nú 379. Þá er mesta fjölgun í íbúðum sem eru á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Slíkar íbúðir eru nú 2.668 sem er aukning um 628 íbúð, eða um 31% frá talningunni í mars. Byggingar sem eru á því byggingarstigi að vera fokheldar eða lengra komnar eru 2.177 talsins og hefur þeim aðeins fjölgað um 6% frá því í mars. 

Áætla fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu

Í Morgunblaðinu kemur fram að í greiningu Samtaka iðnaðarins geri þetta það að verkum að lengra er í að fjölgun íbúða í byggingu birtist í auknum fjölda fullbúinna íbúða. Samtök iðnaðarins áætla að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem er í takt við spá samtakanna frá því í mars. Um er að ræða 2,4% fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu í ár, en til samanburðar þá mældist vöxtur í fjölda íbúða í fyrra 1,5%. Þá er vitnað til þess sem kemur fram í greiningu SI að spá  2.226 íbúðir muni verða fullgerðar á árinu 2019 sem er fjölgun um 2,3% á íbúðum á svæðinu. Þetta eru 202 fleiri íbúðir en SI spáðu að yrðu fullgerðar á árinu 2019 í mars-spá sinni. Nokkru fleiri íbúðir munu samkvæmt spánni verða fullgerðar á árinu 2020 eða 2.695 alls sem er 2,9 prósenta fjölgun íbúða á svæðinu. Þetta er 87 íbúðum meira en reiknað var með að yrði fullgert á því ári í mars-spá Samtaka iðnaðarins,

Morgunblaðið / mbl.is, 3. október 2018.

Morgunbladid-03-10-2018