Fréttasafn



17. maí 2021 Almennar fréttir Menntun

Aukin aðsókn í iðn- og starfsnám gleðileg að mati leiðarahöfundar

Í leiðara Fréttablaðsins um helgina skrifar ritstjórinn, Jón Þórisson, um aukna aðsókn í iðn- og starfsnám sem hann segir að sé gleðileg í því samhengi að mikilvægt sé að bera ekki öll eggin í sömu körfu. Í leiðaranum er vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, sem segir í frétt Fréttablaðsins að fjölgun brautskráninga af iðnnámsbrautum megi þakka kynningarstarfi, laga- og reglugerðarbreytingum stjórnvalda og aukinni uppbyggingu í málaflokknum. 

Í leiðaranum segir að í Fréttablaðinu í vikunni hafi verið sagt frá því að á síðasta ári hefðu 804 nemendur verið útskrifaðir af iðnnámsbrautum í framhaldsskóla og brautskráðum hefði fjölgað mikið undanfarin ár. Frá 2017 til 2020 hefði fjölgað um 25% og var þar vísað til nýrrar greiningar Samtaka iðnaðarins. Í fréttinni er haft eftir framkvæmdastjóra SI að OECD hafi bent á að það hafi neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu landsins að of fáir útskrifist með iðn- og tæknimenntun.

Þá er nefnt í leiðaranum að skemmst sé að minnast þess að yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi sagt í fjölmiðlum nýlega að þekking og færni vinnuaflsins hér á landi væri mjög mikil en samt væri það svo að nýtingin og aukning verðmæta í upplýsingatækni og hátækni væri ekki í réttu hlutfalli við getu og færni þjóðarinnar og vinnuaflsins. Jafnframt segir í leiðaranum að á það hafi verið bent að einhæfni í atvinnulífi þar sem ferðaþjónustan hafi borið ægishjálm yfir aðrar atvinnugreinar þegar heimsfaraldurinn skall á hefði verið veikleiki og úr því þyrfti að bæta. Efling iðnmenntunar og fjölgun þeirra sem leggja fyrir sig iðngreinar sé einmitt til þess fallin. 

Í niðurlagi leiðarans segir að eitt af því sem faraldurinn hafi kennt okkur sé hve kerfin sem við reiðum okkur á séu viðkvæm og lítið megi út af bregða svo illa fari. Í því sambandi sé því mikilvægt að bera ekki öll eggin í sömu körfu. Aukin aðsókn í iðn- og starfsnám sé sannarlega gleðileg í því samhengi. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 15. maí 2021.

Frettabladid-15-05-2021