Fréttasafn



14. okt. 2016 Almennar fréttir

Aukin áhersla á rannsóknir og þróun

Í nýjum gögnum Hagstofunnar er hægt að sjá að aukin áhersla er á rannsókna- og þróunarstarf en á síðasta ári fóru 31,4 milljarðar króna í R&Þ hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Útgjöld fyrirtækja og stofnana til rannsókna- og þróunarstarfs (R&Þ) voru samtals 48,5 milljarðar króna árið 2015, eða 2,19% af vergri landsframleiðslu. Er það aukning úr 2,01% árið 2014 og 1,76% árið 2013, sem skýrist af auknum R&Þ útgjöldum fyrirtækja, sem jukust úr 18,7 milljörðum króna 2013, í 24,7 milljarða króna 2014, og mælast 31,4 milljarðar króna 2015. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Hagstofu Íslands.

Heildarútgjöld til R&Þ árið 2015 voru 48,5 milljarðar króna, sem eru 2,19% af vergri landsframleiðslu þess árs. Árið 2014 voru heildarútgjöldin 40,3 milljarðar króna, eða 2,01% af VLF, en 33,3 milljarðar króna árið 2013, eða 1,76% af VLF.

Aukning á milli ára er helst í R&Þ útgjöldum fyrirtækja og nema þau nú 1,42% af VLF. Til samanburðar var þessi tala árið 2014 1,23% og 0,99% af VLF árið 2013. Því er ljóst að umtalsverður vöxtur er í áherslum atvinnulífs á rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Á sama tíma eru óverulegur vöxtur í útgjöldum opinberra aðila og háskóla sem hlutfall af landsframleiðslu. Hins vegar ber að hafa í huga að á þessu tímabili hefur verið mikill vöxtur í landsframleiðslu.

Í rannsókn Hagstofunnar eru nú birtar upplýsingar um fjölda fólks sem starfar við rannsókn og þróun. Þar kemur m.a. fram að árið 2015 eru stöðugildi rannsakenda 813 hjá fyrirtækjum, 892 hjá háskólastofnunum og 239 hjá öðrum opinberum stofnunum. Fjöldi stöðugilda annarra starfandi við R&Þ (tæknimenn og aðrir) eru 791 hjá fyrirtækjum, 170 hjá háskólastofnunum og 36 hjá öðrum opinberum stofnunum. Hlutfall kvenna á meðal rannsakenda er 37% hjá fyrirtækjum, 52% hjá háskólastofnunum og 40% hjá öðrum opinberum stofnunum, en hlutfall kvenna á meðal annarra starfandi við R&Þ er 29% hjá fyrirtækjum, 63% hjá háskólastofnunum og 43% hjá öðrum opinberum stofnunum.