Fréttasafn



3. maí 2023 Almennar fréttir

Aukin hætta á netárásum vegna fundar Leiðtogaráðs Evrópu

Hjörtur Árnason, formaður Félags rafeindatæknifyrirtækja, segir í grein á Vísi að gera megi ráð fyrir auknum netárásum dagana fyrir og meðan á fundi Leiðtogaráðs Evrópu standi. 

Hjortur_arnason_sart-1-Þetta sé það stór viðburður að illgjarnir aðilar láti þennan viðburð vart framhjá sér fara og séu tilbúnir að valda eins miklum usla og vandræðum með margskonar netárásum eins og hægt er. „Það er samdóma álit þeirra aðila sem þekkja vel til í þessum málum að umtalsverðar líkur séu fyrir hendi á álagsárásum s.s. DDoS til að valda rofi á þjónustum. Einnig má búast við aukningu á varasömum tölvupóstum sem geta valdið vírussýkingum og gagna-gíslatöku (Randsomware). Það þarf oft ekki mikið til, hver man ekki eftir því þegar tyrkneskur hakkarahópur beindi spjótum sínum að íslenskum vefsíðum til að hefna fyrir slæma móttöku Íslendinga á tyrkneska landsliðinu og settu í gang DDoS árás á litla Ísland eftir landsleik Íslands og Tyrklands í fótbolta í júní 2019. Og svo reyndist þetta allt saman einn stór misskilningur hjá þeim.“

Í greininni sem ber yfirskriftina Öryggismenning fer Hjörtur yfir hvað öryggismenning sé og hvernig  heildar öryggisstöðu fyrirtækis séu tryggðar. Þá segir hann frá nokkrum leiðum til að byggja upp ígrundaða öryggismenningu. Hann segir að kostnaður við netöryggis-brot sé verulegur. Netglæpamenn miði á fyrirtæki með lélega öryggisstöðu og ómenntaðir notendur gætu verið hvati skaðlegrar netárásar. Fyrstu árásir byrji oft með því að notandi smellir á grunsamlegan hlekk eða viðhengi og aukist oft í stórt brot síðar.

Hér er hægt að lesa grein Hjartar í heild sinni.

Vísir, 3. maí 2023.