Aukin samkeppnishæfni bætir hag allra landsmanna
Samkeppnishæfni er heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum og með aukinni samkeppnishæfni standa fyrirtækin betur að vígi í alþjóðlegri samkeppni, aukin verðmæti verða til þannig að meira verður til skiptanna. Iðnaður í fararbroddi er drifinn áfram af stöðugum umbótum og því mikilvægt að líta fram á veginn til að efla samkeppnishæfni landsins sem bætir hag allra landsmanna. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í upphafsávarpi á ráðstefnu í Hörpu sem Manino hélt í samstarfi við SI um straumlínustjórnun (e. lean) í vikunni.
Í ávarpi sínu vék Sigurður einnig að mikilvægi framleiðni og sagði hana vera eina af grunnstoðum sterkrar samkeppnisstöðu en þar hafi Ísland verið eftirbátur þeirra ríkja sem við viljum helst bera okkur saman við. „Framleiðni hefur aukist hægt hér á landi undanfarin ár. Á sama tíma hafa laun hækkað hratt og langt umfram það sem sést hefur í nágrannalöndunum og gengi krónunnar hefur einnig hækkað umtalsvert. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur því versnað og getur haft ófyrirséðar afleiðingar til lengri tíma ef ekkert er að gert. Við þessu þurfum við öll að bregðast eins og okkur er framast unnt.“
Atvinnustefna til að auka samkeppnishæfni og framleiðni
Sigurður sagði að með umbótum í þeim fjórum málefnum sem hafa áhrif á framleiðni, menntun, innviðum, nýsköpun og starfsumhverfi fyrirtækja, stöndum við betur að vígi og verðmætasköpun eykst að sama skapi. „Á síðustu árum hafa þau lönd sem við viljum einna helst bera okkur við verið í miklum mæli að marka nýja atvinnustefnu. Það er gert í tvennum tilgangi. Annars vegar til að auka samkeppnishæfni og framleiðni með áherslu á þau fjögur málefni sem ég nefndi en ekki síður í takt við breytta tíma þar sem horft er í mun ríkari mæli til fjórðu iðnbyltingarinnar og auðvitað til þeirra samfélagslegu áskorana sem fram hafa komið á síðustu árum. Gott dæmi um það eru áskoranir sem tengjast loftslagsmálum sem krefjast nýrrar hugsunar og breyttra hátta.“
Hann sagði að rétt eins og við á Íslandi þá leiti önnur ríki leiða til að bæta sína stöðu. „Við erum í stöðugri samkeppni og verðum því að hugsa lengra fram í tímann og nálgast málin með öðrum hætti. Þess vegna skiptir miklu máli að að ýta undir nýsköpun og nýja hugsun til að leysa þessi samfélagsleg viðfangsefni og skapa jafnframt hagvöxt sem gerir okkur fært að keppa á alþjóðagrundvelli. Hagvöxtur síðustu aldar hefur verið knúinn áfram af náttúruauðlindum en nýjar áskoranir hafa einnig sýnt okkur mikilvægi þess að horfa enn frekar í átt að hugvitinu. Að sjálfsögðu verðum við að hlúa að þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar en ekki síður mikilvægt að skapa hér umhverfi fyrir ný og öflug fyrirtæki sem eiga erindi á alþjóðlega markaði og tryggi gjaldeyristekjur og áhugaverð störf.“
Nýsköpun skilar auknum verðmætum og tryggir samkeppnisforskot
Í ávarpi Sigurðar kom fram að nýsköpun muni ráða miklu þegar kemur að framtíðarlífskjörum á Íslandi og nú þegar hafi fjölmörg íslenskt fyrirtæki sýnt dæmi þess hvernig nýsköpun hafi skilað auknum verðmætum og tryggt samkeppnisforskot á markaði. „Hér er ekki einungis verið að horfa til þeirra fjölmörgu íslensku frumkvöðlafyrirtæki sem hafa á síðustu árum verið að skara fram úr á sviði orkunýtingar og aukinni verðmætanýtingu í sjávarútvegi. Nýsköpun fer einnig fram að verulegu leyti innan rótgróinna fyrirtækja sem og samstarfi þeirra á milli í ólíkum starfsgreinum þar sem þarfir og lausnir ná saman. Mörg íslensk fyrirtæki eru ljóslifandi dæmi þess hvernig nýsköpun skilar auknum verðmætum og tryggir samkeppnisforskot á markaði. Með nýsköpun er átt við ferli þegar hugmynd eða umbótum hefur verið hrint í framkvæmd og tekist hefur að skapa nýjar lausnir eða bæta það sem þegar er til staðar. Á þetta við jafnt um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, verklag eða leið til sölu- og markaðssetningar en ekki síður til nýsköpunar á sviði stjórn stjórnunar og stjórnskipulags.“
Undir lok ávarp síns sagði Sigurður stjórnvöld gegna veigamiklu hlutverki við að auka framleiðni og samkeppnishæfni en fyrirtækin og einstaklingar geti ekki síður látið til sín taka í þeim efnum. Þess vegna fagnaði hann viðburðinum þar sem væri búið að fá öfluga og reynslumikla gesti til að segja frá því hvernig við getum gert hlutina betur, aukið framleiðni og þar með verðmæti.