Fréttasafn



9. júl. 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Bæði ríki og sveitarfélög þurfa að liðka fyrir íbúðauppbyggingu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í umfjöllun Morgunblaðsins um nýja greiningu SI um væntanlega umtalsverða fækkun íbúða í byggingu að niðurstöðurnar dragi fram að í hagtölum Hagstofunnar virðist íbúðafjárfesting hafa verið ofmetin. „Þetta hefur áhrif á ýmsa þætti, eins og til dæmis stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans,“ segir Sigurður um afleiðingar ofmatsins. 

Sigurður segir jafnframt í Morgunblaðinu að bæði ríki og sveitarfélög þurfi að grípa inn í til þess að liðka fyrir íbúðauppbyggingu. „Ríkið þarf að huga að lóðum sem það á sjálft og einnig einfalda regluverk. Sveitarfélög þurfa að gera betur þegar kemur að því að úthluta lóðum og einnig þarf að flýta fyrir ákvörðunum og leyfisveitingum.“

Morgunblaðið, 9. júlí 2025.

Morgunbladid-09-07-2025


Skattar og gjöld allt að fjórðungur af verði nýrrar íbúðar

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun ræddi Sigurður einnig um niðurstöður greiningarinnar sem benda til að það verði umtalsverður samdráttur í fjölda íbúða í byggingu fyrir almennan markað á næstu 12 mánuðum. Könnunin var lögð fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir á eigin vegum fyrir almennan markað og er unnin milli talninga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS) á íbúðum í byggingu. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar gera stjórnendur fyrirtækjanna ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu á næstu tólf mánuðum.

Háir vextir og hár fjármagnskostnaður, lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og lóðaskortur draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. „Við þurfum auðvitað að sjá vaxtastigið koma niður. Það þarf einnig að huga að opinberum álögum. Þegar skattar og gjöld eru allt að fjórðungur af verði nýrrar íbúðar eða byggingakostnaðar þá er það orðið býsna hátt. Þetta er í rauninni dulin skattheimta á almenning, sérstaklega á ungt fólk, sem er að koma sér inn á markaðinn. Það ætti ekki að vera í takti við áherslur stjórnvalda, hvorki sveitarfélaganna né ríkisins. Síðan þarf að huga að framboði lóða og að skipulagsáherslur taki mið af þörfum og áherslum markaðarins og almennings,“ sagði Sigurður meðal annars í Bítinu aðspurður um hvað þurfi að breytast.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð.

Vísir, 9. júlí 2025.

Bitid-a-Bylgjunni-09-07-2025