Fréttasafn



1. feb. 2019 Almennar fréttir

Bæta á merkingar á matvælum

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins undirrituðu í dag samkomulag um að gera gangskör í því að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif þeirra. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Undirritunin fór fram í Melabúðinni.

Skipaður verður samráðshópur með fulltrúum neytenda, bænda og verslunar og er hlutverk hans að ráðast í átaksverkefni um merkingar og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Verkefnið er tímabundið í eitt ár og að þeim tíma liðnum verður árangurinn metinn og ákvörðun tekin um framhaldið. 

Á myndinni eru talið frá vinstri, Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Einnig sést í Friðrik Ármann Guðmundsson á bak við búðarborðið í Melabúðinni.