Fréttasafn



18. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Bæta gráu ofan á svart með tafagjöldum

Í fréttum RÚV var rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í tengslum við kynningu samgönguráðherra á nýrri samgönguáætlun en Sigurður tók þátt í umræðum að kynningu lokinni þar sem meðal annars kom fram að gert sé ráð fyrir að verja 560 milljörðum í vegagerð á næstu fimmtán árum. Í viðtalinu kemur fram að Sigurði hugnast ekki tafagjöld í samgöngum en ríkið stefnir að miklum framkvæmdum við samgöngumannvirki á næstu árum og segir hann að nú sé góð tímasetning fyrir slíkar framkvæmdir. „Það skýtur auðvitað svolítið skökku við að það sé hægt að framkvæma lítið sem ekkert hér á höfuðborgarsvæðinu í heilan áratug sem hefur þær afleiðingar að tafir aukast og aukast með hverju árinu sem líður og ætla svo að bæta gráu ofan á svart með því að skattleggja þessar tafir. Þannig að ég efast um að það sé mikill greiðsluvilji fyrir slíku.“ 

Í frétt RÚV kemur fram að Sigurður bendi á að þrjár tegundir gjaldtöku hafi verið nefndar, ein sé samvinnuverkefni þar sem framkvæmdum sé flýtt og yfirleitt með það að markmiði að tími og akstur sparist, önnur snúist um gjaldtöku þegar mun færri bílar ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og ríkið verður af sköttum því tengdum en Sigurður telji að önnur lögmál gildi um tafagjöldin.

Þá kemur fram að Sigurður segi að þetta sé góður tími til að ráðast í svo miklar framkvæmdir. „Vegna þess að við erum að sjá samdrátt í hagkerfinu eftir mikið vaxtarskeið, svoleiðis að núna er rétti tíminn til þess að ráðast í framkvæmdir. Það er mjög skynsamlegt og ekki bara það heldur er það nauðsynlegt vegna þess hve mikill uppsafnaður vandi hefur skapast á síðasta áratug með litlum framkvæmdum.“ Jafnframt kemur fram að iðnaðurinn sé vel undirbúinn fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir á næstu árum að mati Sigurðar. Hann segir að iðnaðurinn sé sveigjanlegur og öflugur og geti vaxið og dregist saman eftir aðstæðum. „Það mun ekki standa á iðnaðinum að gera sitt.“

RÚV, 17. október 2019.

Á vef mbl.is er hægt að horfa á útsendingu frá fundinum.