Fréttasafn



21. nóv. 2018 Almennar fréttir

Bætt lífskjör með aukinni samkeppnishæfni

Verðmæti og bætt lífskjör verða til með aukinni samkeppnishæfni. Hagkerfið þarf að byggjast á fjölbreytilegri og gróskumikilli atvinnustarfsemi sem er drifin áfram af nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. Þetta kom meðal annars fram í erindi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, um samkeppnishæfni Íslands sem hann flutti á sjávarútvegsráðstefnunni sem fram fór í Hörpu í síðustu viku. 

Sjavarutvegsradstefna-2018-2-

Í erindi sínu tók Sigurður dæmi um þær áskoranir sem takast þarf á við en þeirra á meðal eru öldrun þjóða, umhverfis- og loftslagsmál og fjórða iðnbyltingin. Hann stillti upp framtíðarsýn ársins 2050 sem fram kemur í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins um atvinnustefnu en þar er gert ráð fyrir tvöföldun hagkerfisins og heilmiklum lýðfræðilegum breytingum sem fela meðal annars í sér fækkun þeirra sem eru á vinnualdri á móti hverjum 65 ára eða eldri. Nú eru það 4,7 einstaklingar fyrir hvern 65 ára og eldri en verða einungis 2,7 árið 2050. Þá mun landsmönnum fjölga um 95 þúsund og vera orðnir 443 þúsund talsins.

Sigurður sagði jafnframt frá því hvaða umbætur það eru sem ráðast þarf í til að efla samkeppnishæfni landsins og hvernig hægt er að taka á móti þeim áskorunum sem við blasa. Hann sagði samkeppnishæfnina vera eins konar heimsmeistaramót í lífsgæðum. Þá sagði hann að ef framtíðarsýnin um aukin lífsgæði eigi að verða að veruleika þurfi að móta atvinnustefnu þar sem leiðir í ýmsum málaflokkum eru útfærðar þannig að samkeppnishæfnin aukist. Þannig gæti atvinnustefna verið rauður þráður í stefnumótun hins opinbera þar sem stefnumótun einstakra málaflokka væri samhæfð.