Fréttasafn27. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Bættar samgöngur skapa ný tækifæri

Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir í viðtali í Iðnþingsblaðinu að góðar vegasamgöngur skipti atvinnulífið miklu og því brýnt að ráðast í framkvæmdir á því sviði. Hann segir að fyrirtæki á landsbyggðinni standi frammi fyrir alvarlegum vanda vegna vega sem hafa fengið að grotna niður og ráða ekki við þá miklu aukningu umferðar sem orðið hefur á þjóðvegunum. 

Sigurður nefnir að þörf sé á fleiri samgöngumannvirkjum í höfuðborginni en þar sé þó útlit fyrir að takist að halda yfirborði gatna í sæmilegu horfi með átaki sem hófst á síðasta ári og verði framhaldið á þessu ári. Hann segir að slæmir vegir torveldi vöruflutninga og fæla frá ferðamenn á meðan góðir vegir leyfi gott flæði vöru, starfsfólks og innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna. „Við sjáum það t.d. gerast með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og betri tengingum út frá höfuðborgarsvæðinu að búið er að stækka atvinnusvæðið og vaxandi fjöldi fólks sem getur búið í Reykjanesbæ, Hveragerði eða uppi á Akranesi en unnið í Reykjavik – eða öfugt. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafði í reynd þau áhrif að stytta ferðalagið á milli Reykjavíkur og byggðanna úti á Reykjanesi og vegurinn þar að auki orðinn mun öruggari, þó enn vanti herslumuninn sem drífa á í að ljúka.“ Hann segir jafnframt að sagan sýni það glögglega að góðar samgöngur séu einn mikilvægasti áhrifaþátturinn hvað snýr að hagsæld þjóða og þegar saga Íslands sé skoðuð megi t.d. sjá hvernig bættar samgöngur innanlands og út í heim hafa skapað ný tækifæri og leiði til tekjuöflunar. 

Í Iðnþingsblaðinu er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.


Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, tók þátt í umræðum um starfsumhverfi á Iðnþinginu ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Ólöfu Helgadóttur, rafmagnsverkfræðingi hjá Lotu.