Fréttasafn



5. des. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Bakaraiðn og kökugerð eru lögverndaðar starfsgreinar

Í ljósi umfjöllunar um iðnaðarstarfsemi sem rekin er án tilskilinna réttinda vill Landssamband bakarameistara koma því á framfæri að störf iðnaðarmanna sem og réttur þeirra til að reka iðnað í atvinnuskyni nýtur lögverndunar. Það á við um bakaraiðn og kökugerð. Tilgangur þess er að vernda neytendur, tryggja gæði og fagmennsku enda hafa bakarar og kökugerðarmenn lokið bóklegu og verklegu námi til að öðlast kunnáttu og færni í faginu.

Ekkert eftirlit er til staðar af hálfu hins opinbera um fjölmargar lögverndaðar iðngreinar. Eftirlit með því að iðnaðarlögunum er fylgt eftir hvílir á herðum iðnaðarstéttarinnar sjálfrar og eina úrræðið er að kæra ófaglærða aðila sem gengið hafa inn á svið iðngreinarinnar til lögreglu. Þetta er óboðleg staða.

Þrátt fyrir að ekkert eftirlit né raunhæf úrræði séu til staðar til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra bakara og kökugerðarmanna mun Landssamband bakarameistara áframverja hagsmuni stéttarinnar og tryggja vernd neytenda fyrir því að þeir einstaklingar sem starfa á sviði iðngreinarinnar hafi öðlast tilskilda menntun og hæfni til verksins.

Mannlíf, 5. desember 2019.

DV, 5. desember 2019.