Fréttasafn26. mar. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Bann á einnota plastvörum hefur áhrif á íslensk fyrirtæki

Samtök iðnaðarins og Umhverfisstofnun stóðu fyrir vel sóttum rafrænum kynningarfundi um breytingar sem munu eiga sér stað í byrjun júlí sem tekur til einnota plastvara. Á fundinum sem um 50 manns sátu kynnti Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í hverju breytingarnar felast, hvað verði leyfilegt og hvað ekki.

Á fundinum kom fram að breytingarnar munu hafa nokkur áhrif á íslensk fyrirtæki. Lagt verður bann við að setja einnota plastvörur á markað til að mynda plaströr, plastmál, eyrnapinna og plasthnífapör. Þá verður fyrirtækjum óheimilt að afhenda einnota plastvörur án endurgjalds, einnota drykkjarílát verða að vera að hluta til úr endurunnu plasti og með áföstum tappa og skylda verður að merkja tilteknar vörur eins og bolla fyrir drykkjarvörur, tíðarvörur, blautþurrkur og fleira.

Á fundinum voru bornar fram fjölmargar spurningar. Kom fram nokkur óánægja meðal framleiðenda með framkvæmd þeirra laga sem hafa áhrif á þessar breytingar. Lögin voru samþykkt um mitt sumar á síðasta ári, áður en Evróputilskipunin hafði litið dagsins ljós. Á fundinum kom fram að stjórnvöld hafi ekki enn birt reglugerð sem innleiðir tilskipunina og því liggi ljóst fyrir að fæstir hafi fengið að vita hvað í raun er að fara breytast.  

Hér er hægt að nálgast glærur Gró frá fundinum.