Fréttasafn



4. okt. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Beita á ríkisfjármálum til að vega á móti niðursveiflunni

Efnahagshorfur hafa farið hratt versnandi undanfarið. Í stað hagvaxtar hefur tekið við samdráttur. Verkefnið nú er því að beita ríkisfjármálum með virkum hætti til að vega á móti niðursveiflunni og stuðla að jafnvægi á milli framleiðslugetu og eftirspurnar í samspili við stjórn peningamála. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 sem send hefur verið til fjárlaganefndar Alþingis. 

Einnig segir í umsögninni að við þessar aðstæður sé hættulegt að ofmeta væntan viðsnúning hagkerfisins eins og virðist því miður vera gert í þeirri spá sem lögð sé til grundvallar frumvarps til fjárlaga ríkissjóðs. Samtök iðnaðarins benda á að forsendur þessa efnahagsbata sem spáin gerir ráð fyrir séu býsna bjartsýnar og að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf ef viðsnúningur hagkerfisins á að vera þetta hraður hér á landi á næstunni. Það er að mati samtakanna fullt tilefni til þess að nýta svigrúm innan fjármálareglna til að auka við slakann í opinberum fjármálum.

Skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera

Í umsögninni lýsa Samtök iðnaðarins ánægju sinni að í frumvarpinu séu framlög aukin til samgöngumála, nýsköpunar og menntunar. Einnig fagna samtökin þeim áformum sem ætlað er að bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Benda samtökin hins vegar á að ekki nægir að auka fjárframlög til þessara verkefna heldur þurfi að gæta að því að það fjármagn sem í þau fer sé að skila sér í bættri samkeppnishæfni og aukinni innlendri verðmætasköpun fyrirtækjum og heimilum til heilla. Mikilvægt sé að huga að skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera og auka þurfi áherslu á árangur útgjaldaþátta.

Mikilvægt að draga úr skattheimtu

Í umsögninni segir jafnframt að viðnámsþróttur fyrirtækja sé meiri nú en oft áður, þ.e. eiginfjárstaða atvinnugreina sé sterk og skuldir í hlutfalli af landsframleiðslu sögulega lágar. Þó hafi dregið hratt úr viðnámsþróttinum undanfarið. Skuldahlutföll hafi hækkað og arðsemi eigin fjár dregist saman. Þá hafi launakostnaður farið hækkandi hvort sem litið er á meðallaunakostnað á hvern starfsmann eða launakostnað í hlutfalli af tekjum og verðmætasköpun. Mikilvægt sé við þessar aðstæður að draga úr skattheimtu á íslensk fyrirtæki. Í því sambandi sé í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir að tryggingagjaldið lækki um 0,25% á árinu 2020 en þrátt fyrir lækkunina verði tryggingagjaldið enn of hátt miðað við núverandi stöðu á vinnumarkaði. Frekari lækkun tryggingagjaldsins sé því nauðsynleg aðgerð fyrir íslenskan vinnumarkað en með því sé fyrirtækjunum auðveldað að mæta hækkandi launakostnaði á komandi árum og spornað gegn fækkun starfsfólks í niðursveiflunni.

Gagnrýni á umhverfisskatt

Þá kemur fram í umsögninni að samkvæmt frumvarpinu sé lögð til innheimta á alls um 50 ma. kr. í formi umhverfisskatta án þess að nokkur reki sér gerður að því hvernig þeirri fjárhæð verði beint í aðgerðir eða uppbyggingu á sviði umhverfismála. Mikilvægt sé að mati samtakanna að hugmyndir að nýjum umhverfissköttum verði betrumbættar á þann veg að í þeim verði gerð grein fyrir því hvernig standi til að ráðstafa tekjunum af þessari innheimtu skatta.

Fagna auknum útgjöldum til nýsköpunar- og samgöngumála

Í umsögninni segir einnig að Samtök iðnaðarins fagni því að útgjöld til málaflokks nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 11% á milli ára og sýni þetta vilja stjórnvalda til að efla nýsköpun hér á landi og skilning á mikilvægi nýsköpunar fyrir framtíðarlífskjör. Samtökin hvetja stjórnvöld til að halda áfram á þeirri braut að nýta skattkerfið til að hvetja til rannsókna og þróunarstarfsemi fyrirtækja. Þá fagna samtökin auknum framlögum til samgöngumála í frumvarpinu en þar er lagt til að fjárfestingar í samgöngum verði auknar í 28 ma.kr. á næsta ári og að samtals verði 120 ma.kr. varið í viðhald og nýfjárfestingar í þennan málaflokk á tímabilinu 2020 til 2024. Hins vegar sé ljóst að betur má ef duga skal í þessum efnum og benda samtökin á að þetta sé einungis tæplega 43% af þörf. Jafnframt segir í umsögninni að ánægjulegt sé í þessu sambandi að sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi undirritað samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin þar sem gert sé ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 120 milljarða á svæðinu og að gjaldtaka muni standa undir 60 milljörðum. 

Hér er hægt að nálgast umsögn Samtaka iðnaðarins í heild sinni.