Fréttasafn



20. maí 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Betra að innistæða sé fyrir ímynd athafnaborgar

Í leiðara helgarútgáfu Morgunblaðsins er vikið að innihaldi greinar sem Sigurður Hannesson, framkvæmdasstjóri SI, skrifaði og birt var í blaðinu síðastliðinn föstudag undir fyrirsögninni „Athafnaborgin standi undir nafni“.

Í leiðaranum sem ber yfirskriftina Ímynd og veruleiki segir að ímyndarsmíð sé snar þáttur í samskiptum á okkar tímum og í slíkum æfingum geti verið betra að innistæða sé fyrir ímyndinni. Þar segir jafnframt að þessa dagana sigli Reykjavík undir gunnfána orðsins athafnaborgin og vísað er til þess sem Sigurður skrifar í grein sinni: „Þar segir hann að borgarskipulag þar sem iðnaður, verslun og þjónusta þrífist í bland við íbúabyggð tryggi blómlegt samfélag og fagnar því að stjórnendur borgarinnar skuli nú kynna Reykjavík sem athafnaborg. Hann bendir jafnframt á að það geri „þeim sem reka atvinnustarfsemi erfitt fyrir í mörgu tilliti“. Tínir hann þar til að fasteignaskattar á fyrirtæki hafi hækkað hratt síðustu ár og nemi hækkunin 45% umfram verðlagsþróun á árunum frá 2011. Reykjavík nýti sér lögbundið hámark álagningar á meðan dæmi séu um önnur sveitarfélög, sem hafi lækkað hlutfallið um allt að þriðjung. Lítið hafi verið um samgönguframkvæmdir innan borgarinnar þrátt fyrir stóraukna umferð. Fyrir vikið sé fólk 45% lengur að fara í og úr vinnu frá úthverfum að miðju en fyrir nokkrum árum. Þetta komi beint niður á framleiðni og verðmætasköpun. Hann bendir einnig á galla þess að ýta atvinnustarfsemi út í jaðar borgarinnar. Ráðamenn í borginni gerðu rétt í að taka þessar athugasemdir til greina vilji þeir ekki að ímyndarorðið athafnaborgin hljómi eins og háðsglósa í eyrum almennings.“

Morgunblaðið, 18. maí 2019.

Morgunbladid-18-05-2019