BL fær jákvæð viðbrögð við vinnustaðanámi
Jákvæð viðbrögð hafa verið við vinnustaðarnámi hjá BL sem hleypt var nýlega af stokkunum í kjölfar þess að fyrirtækið gerðist aðili að Sáttmála um eflingu vinnustaðanáms sem Samtök iðnaðarins standa fyrir.
BL hefur gefið út sérstakan kynningarbækling sem ber heitið „Viltu vinna hjá fyrirtæki í fremstu röð? Við kynnum spennandi tækifæri fyrir ungt fólk“ en bæklingurinn hefur þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi er hann ætlaður til upplýsingar gagnvart nemum sem byrjað hafa nám í bílgreinum og vilja kynna sér framtíðarmöguleika í námi og starfi hjá BL. Í öðru lagi er hann ætlaður verkmenntaskólanemum sem hafa ekki tekið ákvörðun um það hvaða framtíðarstarf þeir vilja leggja fyrir sig og í þriðja lagi er hann hugsaður fyrir nemendur 10. bekkjar grunnskólanna og foreldra þeirra til upplýsingar.
Fyrirtækið hefur skipulagt fjórar heimsóknir nemenda í 10. bekk til BL, tvær fyrir áramót og tvær eftir áramót, auk þess sem haldnir eru opnir dagar í fyrirtækinu með reglulegu millibili fyrir ungt fólk og foreldra þeirra. Fyrsta kynningin var haldin 19. október síðastliðinn þegar 30 nemar í 10. bekk Foldaskóla ásamt námsráðgjafa komu í heimsókn.
Verkefnið hjá BL hefur farið vel af stað því í kjölfar þessarar fyrstu heimsóknar hafa kennarar og kennslustjórar í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu haft samband við BL til að spyrjast fyrir um mögulega heimsókn til fyrirtækisins með nemendur. Einnig hafa foreldrar haft samband til að spyrjast fyrir um verkefnið og framvindu þess. Því hefur verið ákveðið að fjölga heimsóknum og koma þannig til móts við óskir fleiri skóla.