Fréttasafn



1. feb. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Blasir við að 2019 verði framkvæmdaár

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um samgöngumál, íbúðaskort og samkeppnishæfni í við Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni. Hann sagði meðal annars að Samtök iðnaðarins hefðu haldið Útboðsþing í síðustu viku þar sem komið hafi fram að fyrirhugaðar opinberar framkvæmdir væru samtals undir 80 milljörðum í ár, á árinu á undan hafi staðið til að framkvæma fyrir 90 milljarða og árið þar á undan fyrir um 100 milljarða . „Þannig að fyrirhugaðar framkvæmdir hafa verið að minnka með árunum. Ég segi að þetta sé birtingamynd þeirrar pólitísku óvissu sem hefur verið hér síðustu ár. Nú er henni aflétt. Það er kominn pólitískur stöðugleiki þannig að við blasir framkvæmdaárið 2019. Það hlýtur að vera bætt í á næsta ári.“

Grafalvarleg staða í samgöngumálum

Sigurður segir í viðtalinu að staðan í samgöngumálum sé auðvitað með hreinum endemum því fjárfesting í vegakerfinu hafi ekki verið minni í hálfa öld heldur en núna síðustu árin. „Á síðustu hálfri öld höfum við auðvitað gengið í gegnum allskonar skeið, það hefur verið uppgangur og það hafa verið djúpar lægðir en emgu að síður, núna hefur það aldrei verið minna. Því lengur sem framkvæmdum er slegið á frest, og viðhaldi sérstaklega, því mun dýrara verður það. Við erum ekki að spara pening heldur kostar það okkur, þetta viðhaldsleysi. Á sama tíma hefur umferðin auðvitað aukist umtalsvert mikið, ekki síst með tilkomu og vexti ferðaþjónustunnar. En við sjáum það að framlög á hvern ekinn kílómeter er núna 9 krónur og hafa ekki verið minni á þessari öld heldur en núna síðustu árin. Þau eru 9 krónur en hafa að meðaltali verið 12 krónur. Þetta er grafalvarleg staða.“

Uppsöfnuð viðhaldsþörf yfir 60 milljarðar

Sigurður segir að framlögin í krónum talið hafi verið að aukast með tímanum en umferðin hafi líka aukist mjög mikið og það nái ekki að haldast í hendur. „Það er vandamálið. Þannig að á meðan sjáum við að ástand á vegum er slæmt. Við sjáum það að mati Vegagerðarinnar þá er uppsöfnuð viðhaldsþörf  yfir 60 milljarðar og bara til að halda í horfinu þá þarf 8 milljarða á hverju einasta ári. Það þýðir að ef við ætlum á næstu 5 árum að vinna upp þessa uppsöfnuðu þörf og halda í horfinu þá þarf 20 milljarða á ári í 5 ár eða 100 milljarða. Þannig að það er svo sannarlega verk að vinna.“

Bitnar á hagvexti

Hann segir að við þessu verður að bregðast. „Við sjáum það núna í vor verður birt ríkisfjármálaáætlun, það er að segja áætlanir ríkisins um fjárfestingar og framlög næstu 5 árin þá hljótum við að sjá einhver merki um auknar fjárfestingar í samgöngumálum.“ Þegar þáttastjórnendurnir spyrja Sigurð en ef við gerum það ekki? „Þá erum við í mjög vondum málum vegna þess að þetta bitnar á hagvexti eins og þið bendið á. Ferðaþjónustuna og vöxtinn þar, hann auðvitað hangir á því að samgöngur og aðrir innviðir séu í lagi,“ segir Sigurður.  

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.