Fréttasafn2. des. 2016 Gæðastjórnun

Blikksmiðja Guðmundar fær C vottun

Blikksmiðja Guðmundar ehf. hefur hlotið C vottun Samtaka iðnaðarins. C-vottun SI staðfestir að reksturinn er í góðum höndum, studdur með öflugu verkbókhaldi, góðri skipulagningu og með mikla sérstöðu varðandi áherslur í öryggis- og heilbrigðismálum.

Blikksmiðja Guðmundar er 40 ára gamalt fyrirtæki á Akranesi sem sinnir allri almennri blikksmíði. Helstu verkefni fyrirtækisins hafa verið loftræstikerfi, klæðningar og sérsmíði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og opinberar stofnanir. Fyrirtækið er mjög vel tækjum búið og hefur yfir að ráða úrvals starfsfólki og er því vel samkeppnisfært á sínu sviði að sögn Emils Kristmanns Sævarssonar framkvæmdarstjóra. Hann segir spennandi tíma framundan hjá fyrirtækinu þar sem gæðavitund leikur stórt hlutverk. Kröfur til verktaka hafa aukist til muna að undanförnu en með vönduðu gæðastjórnunarkerfi má koma í veg fyrir ýmis vandamál og óþarfa kostnað. „Gæði aukast ekki nema með samvinnu allra sem koma að og þar hefur gæðavottun Samtaka iðnaðarins skipt miklu máli og verið starfsfólki okkar hvatning til enn betri verka,“ segir Emil og bætir við að þessi áfangi sé mikil viðurkenning á að vel hafi tekist til.