Fréttasafn



30. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Blikur á lofti og hagsmunagæsla sjaldan verið mikilvægari

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í blaði Viðskiptablaðsins, Áramót, sem kom út 30. desember að það séu blikur á lofti í alþjóðamálum en tollastríð sé í aðsigi bæði austan hafs og vestan og að hagsmunagæsla hafi sjaldan verið mikilvægari. Sigurður svarar spurningum blaðsins um árið sem er að líða og væntingar til næsta árs. 

Háir vextir hafa neikvæð áhrif á rekstur og fjárfestingar

Hvernig var árið 2024 á heildina litið? „Hátt vaxtastig hefur sett strik í reikninginn hjá fyrirtækjum og heimilum landsins. Bjartsýni gætti í upphafi árs en háir vextir hafa neikvæð áhrif á rekstur og fjárfestingar. Eins og fyrri ár hefur reynt á viðnámsþrótt þar sem krefjandi aðstæður kalla á viðbrögð Á sama tíma og fólk þurfti að yfirgefa heimili sín í Grindavík hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með stórum hópi fólks vinna hörðum höndum að því að bjarga verðmætum og halda mikilvægum innviðum í rekstri. Skortur á raforku kostnaði 14-17 milljarða í tapaðar útflutningstekjur á fyrri hluta ársins og skerðingar hófust aftur í október.“

Gleðilegt að Alþingi framlengdi skattahvata til nýsköpunar

Hvað fannst þér ganga vel á árinu? „Hugverkaiðnaður er sú útflutningsstoð sem vex hraðast og gæti orðið verðmætasta útflutningsstoðin fyrir lok þessa áratugar. Það var gleðilegt að sjá Alþingi framlengja skattahvata til nýsköpunar rétt fyrir þinglok. Við fögnum því að stjórnvöld hafi sett af stað framkvæmdir við verknámsskóla og að nýr Tækniskóli muni rísa í Hafnarfirði. Allt að þúsund umsóknum um iðnnám hefur verið hafnað árlega undanfarin ár, meðal annars vegna húsnæðisskorts.“

Viðnámsþróttur og gervigreind meðal helstu viðfangsefna næsta árs

Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs? „Bætt samkeppnishæfni, nýjar virkjanir, nýjar íbúðir, betri innviðir og afhúðun regluverks eru verkefni sem bíða úrlausnar. Hið sama á við um umbætur á vinnumarkaði, bæði hvað varðar lggjöf og að hið opinbera líti í eigin barm hvað varðar þenslu. Viðnámsþróttur og gervigreind eru meðal helstu viðfangsefna ársins. Það eru blikur á lofti í alþjóðamálum en tollastríð er í aðsigi bæði austan hafs og vestan. Hagsmunagæsla hefur sjaldan verið mikilvægari.“

Áramót, 30. desember 2024.