Blikur á lofti varðandi tolla á lyf og áhrif á einstök fyrirtæki
„Lækningavörur og -tæki eru að mestu leyti undanskilin tollum sem og lyf. Það eru blikur á lofti varðandi lyf því Bandaríkjastjórn hefur sagt að það kunni að verða lagðir tollar á innflutning til Bandaríkjanna,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem fjallað er um möguleika á frekari tollahækkunum. Sigurður segir að þetta skipti fyrirtækin verulegu máli. „Fyrirtækin sem eru að flytja vörur til Bandaríkjanna þurfa þá að taka á sig eða lenda í því að þeirra vörur bera 15% toll. Þannig að áhrifin eru í raun mest á þau fyrirtæki sem að um ræðir.“
Verri viðskiptakjör hafa áhrif á rekstur fyrirtækja
Í fréttinni kemur fram að nákvæm áhrif komi ekki fram strax en búast megi við þeim breytist staðan ekki. „En það er auðvitað þannig að verri viðskiptakjör hafa áhrif á rekstur fyrirtækja þannig að það má búast við að þau áhrif komi fram með tímanum á þann hátt. Hvort sem það verður með einhverskonar tilfærslu á framleiðslunni, breytingum á aðfangakeðjum, einhvers konar hagræðingu í rekstri eða öðru.“
Þá segir Sigurður í fréttinni: „Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum undanfarin misseri verið í daglegu sambandi við utanríkisráðuneytið og eftir atvikum önnur ráðuneyti varðandi þessi tollamál.“
Hér er hægt að hlusta á fréttina í heild sinni.
Bylgjan, 13. ágúst 2025.