Fréttasafn



6. apr. 2018 Almennar fréttir

Boðað stórátak í vegakerfinu stenst ekki skoðun

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir að boðað stórátak í uppbyggingu vegakerfisins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar standist ekki skoðun. „Þegar litið er yfir forgangsröðun ríkistjórnarinnar í uppbyggingu innviða er vegamál ekki að finna á lista yfir fimm helstu atriðin. Það segir sína sögu. Af þeim 340 milljörðum sem leggja á í innviðauppbyggingu fer um þriðjungur í samgöngumál sem er lítillega meira en áformað hefur verið á undanförnum árum.“ Sigurður segir jafnframt í frétt Helga Vífils Júlíussonar, blaðamanns, að komandi kynslóðir þurfi að greiða fyrir bættar samgöngur ef ekkert verði gert. 

Vonbrigði með tryggingagjaldið

Hvað tryggingagjaldið varðar segir Sigurður að það valdi vonbrigðum að það verði ekki lækkað um meira en hálftprósent á kjörtímabilinu. „Það erekki síst vegna tryggingagjaldsins sem skattar eru með þeim hæstu hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Háir skattar bitna á samkeppnishæfni fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum.“

Fagnar afnámi þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar

Sigurður fagnar því að þak á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verði afnumið. Það sé mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið. „Auk þess er ánægjulegt að framlög til háskóla verði aukin og stefnt er að því að þau verði í takt við meðaltal OECD-ríkjanna.“