Fréttasafn26. nóv. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Bókaprentun hverfandi iðnaður á Íslandi

Prentun harðspjaldabóka á Íslandi er hverfandi iðnaður. Fyrir áratug var um helmingur íslenskra bóka prentaðar hér á landi en nú fyrir þessi jól eru nánast allar bækur prentaðar erlendis.   

Þó að á Íslandi sé enn hægt að fá prentaðar harðspjaldabækur er það í litlu magni í samanburði við það sem var áður en prentsmiðjan Oddi hætti starfsemi bókbands, prentunar og frágangs á harðspjaldabókum fyrr á þessu ári.   

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Það virðist sem skammtímasjónarmið hafi ráðið för þegar bókaútgefendur hófu að leita í auknum mæli með bókaprentun erlendis. Bókaprentun er gömul iðngrein hér á landi en hátt í 500 ár eru síðan fyrsta prentvélin var sett upp á Íslandi. Þessi mikilvægi iðnaður hefur farið halloka síðustu ár og er nú að hverfa. Það skiptir miklu fyrir íslenska hagkerfið að hafa fjölbreytni í atvinnulífinu því það dregur úr sveiflum. Með því að færa bókaprentun úr landi dregur úr þeirri fjölbreytni. Bókaútgefendur höfðu val um hvert þeir beindu viðskiptum sínum og það verður ekki horft framhjá þeirri staðreynd að þeir völdu að fara með bókaprentunina erlendis. Það er söknuður að því nú þegar virðist sem iðnaðurinn sé að mestu farinn úr landi.“ 

Fréttatilkynning Samtaka iðnaðarins, 26. nóvember 2018.

mbl.is, Fréttablaðið, 26.11. 2018. Vísir, 27.11.2018.