Fréttasafn10. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Borgarbúar fastir í umferð

Tafir á tafir ofan er yfirskrift leiðara helgarútgáfu Morgunblaðsins þar sem fjallað um tafir í umferðinni og vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, og nýrrar greiningar Samtaka iðnaðarins

Þar segir meðal annars að íbúar höfuðborgarsvæðisins þekki vel til þess að horfa á eftir tíma, sem fer forgörðum vegna tafa í umferðinni. Hnútarnir myndist víða og það fari eftir tíma dags, hvort það er kvölds eða morgna, í hvaða átt tregðan er meiri. Þar segir að í greiningu SI á kostnaði umferðartafa í tilefni af mótun samgönguáætlunar fyrir árin 2019 til 2033 komi fram að þjóðhagslegur kostnaður vegna umferðartafa á höfuðborgarsvæðinu hafi verið samanlagt rúmlega 15 milljarðar króna þar sem atvinnulífið hafi tapað um sex milljörðum vegna tapaðs vinnutíma og almenningur um níu milljörðum vegna tapaðs frítíma. Samtals sé áætlað í úttekt SI að 19 þúsund klukkustundum hafi verið sóað í umferðarteppum á hverjum virkum degi í fyrra eða um sex milljónum klukkustunda árið allt. Jafngildir þetta því að hver borgarbúi sé fastur í umferð þrjá daga á ári. Vitnað er til orða Sigurður sem segir að það sé hagsmunamál að tafir séu sem minnstar og að hann sjái ýmislegt athugavert við hvernig á þessum málum sé haldið. Við blasi að mun treglegar hafi gengið að fá fólk til að taka strætó en til stóð þótt drjúgu fé hafi verið varið til þess. Hlutfall farþega með strætó hafi átt að fara úr fjórum af hundraði í átta af hundraði á áratugnum frá 2012 til 2022, en standi í stað þótt sjö ár séu liðin og aðeins þrjú ár til stefnu að ná markinu. Þrátt fyrir þessa reynslu eigi að setja 42 milljarða króna í að byggja upp borgarlínu til ársins 2033. Þá segir í leiðaranum að Sigurður spyrji hvort þetta þýði að tafirnar eigi einfaldlega að verða fastur liður og efist um leið um að kostnaðaráætlunin muni standast, ekki síst í ljósi reynslunnar af bragganum í Nauthólsvík. Einnig er nefnt að hann segi að aðgerðir til að greiða fyrir umferð þurfi ekki alltaf að vera dýrar og nefnir skilvirkari stýringu á umferðarljósum. Í leiðaranum segir að þetta sé góð ábending en í október hafi verið fjallað um umferðarljósakerfið á höfuðborgarsvæðinu í Morgunblaðinu og hvernig kynning á kerfinu í Ósló fyrir stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi opnað augu manna fyrir því hvað þeir væru langt á eftir hér. 

Í niðurlagi leiðarans segir að greining Samtaka iðnaðarins sé þarft innlegg í umræðuna um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Einnig segir að það sé engan veginn ljóst hvað þurfi til að valdhafar í borginni átti sig á að þeir séu á villigötum og mætti jafnvel ætla að þeim væri fullkomlega sama, á meðan geti borgarbúar setið fastir í umferðinni í boði þeirra.

Morgunblaðið, 8. desember 2018.