Fréttasafn



8. júl. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Borgaryfirvöld hlusti á sjónarmið SI til nýbygginga

Í leiðara Morgunblaðsins segir að borgaryfirvöld ættu að hlusta á sjónarmið Samtaka iðnaðarins og fleiri aðila sem ítrekað hafi bent á að of lítið svigrúm sé til nýbygginga í borginni, einkum utan þéttingarreita og sé iðulega bent á Úlfarsársdalinn í því sambandi. Meirihlutinn í borginni hafi nú tækifæri til að stórauka framboð á hagstæðu byggingarlandi og þar með íbúðum á viðráðanlegu verði. Í niðurlagi leiðarans segir að því miður sé ekkert sem bendi til að núverandi meirihluti muni grípa þetta tækifæri.

Í leiðaranum er vitnað í könnun sem gerð var fyrir Samtök iðnaðarins og gefi til kynna að 13% aukning verði á fjölda íbúða í byggingu á næstu tólf mánuðum, sem sé umtalsvert betra útlit en fyrir hálfu ári þegar sambærileg könnun hafi bent til 21% samdráttar. Líkur standi til að innkoma Grindvíkinga á markaðinn að undanförnu hafi haft áhri. Í leiðaranum er vitnað til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, sem segir þetta hafi gefið verktökum rými til að fara í ný verkefni. Spurning sé hvaða áhrif þetta hafi til frambúðar og hann bendi á að vaxtastig sé enn hátt og lóðaverð og gjaldtaka sveitarfélaganna hafi hækkað. Stóra málið sé skortur á hentugum lóðum. Þá kemur fram að Sigurður segir þær hugmyndir sem kynntar hafi verið nýverið í Reykjavík góðra gjalda verðar, en meira þurfi til ef mæti eigi þörfinni. Einnig segir að hann lýsi áhyggjum af því að þegar vextir lækki muni húsnæðisverð hækka þar sem of fáar íbúðir komi inn á markaðinn. Þá bendi hann á að skynsamlegt væri að stækka hverfið í Úlfarsárdal, en Reykjavík hafi ekki verið tilbúin til þess. 

Morgunblaðið, 8. júlí 2024.

Morgunbladid-08-07-2024