Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Borgin afhendi upplýsingar um LED-væðingu götulýsinga

Í Viðskiptablaðinu er greint frá því að úskurðarnefnd um upplýsingamál hafi fellt úr gildi afgreiðslu Reykjavíkurborgar um afhendingu á upplýsingum til Samtaka iðnaðarins sem varða viðhald, endurnýjun og LED-væðingu götulýsinga í borginni.

7-10 milljarða króna framkvæmd

Í fréttinni kemur fram að á næstu árum sé fyrirhugað að skipta yfir í LED-lýsingu í borginni og  áætlað að það muni koma til með að kosta um sjö til tíu milljarða króna. Hingað til hafi Orku náttúrunnar verið falið að hafa umsjón með og bera ábyrgð á verkinu án útboðs. SI fengu þjónustusamning vegna verksins afhentan en fylgiskjöl fengust ekki afhent þar sem borgin taldi þær upplýsingar vera samkeppnisupplýsingar ON sem leynt mættu fara.

Skylt að afhenda SI upplýsingar að fullu

Þá segir að í úrskurðinum komi fram að eitt af markmiðum upplýsingalaganna væri að gefa almenningi tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Hagsmunir einstakra lögaðila á samkeppnismarkaði af því að samkeppnisaðilar þeirra geti boðið opinberum aðilum lægri verð fyrir veitta þjónustu verði því almennt að víkja fyrir þeim hagsmunum almennings að geta kynnt sér slíkar upplýsingar. Þá segir í fréttinni að þess sé einnig getið að þótt upplýsingar hefðu verið afmáðar á einum stað í skjalinu þá hefði það láðst á öðrum stað og borginni því talið skylt að afhenda SI umræddar upplýsingar að fullu.

Viðskiptablaðið, 9. maí 2020.