Fréttasafn



5. jún. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Bregðast þarf skjótt við vaxandi skattheimtu sveitarfélaga

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag þar sem kemur fram að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði í ár og á næsta ári hafi aldrei verið hærri. Á sama tíma sé glímt við dýpstu niðursveiflu í 100 ár. Fyrirtæki munu greiða um 28 milljarða á þessu ári og aðra 28 milljarða á næsta ári. Skattarnir hafi hækkað um nær 50% að raunvirði frá árinu 2015 og 20% frá 2018 þegar niðursveiflan í efnahagslífinu hófst. Þetta kemur fram í greiningu Samtaka iðnaðarins. „Það þarf að bregðast skjótt við vaxandi skattheimtu sveitarfélaga í ljósi þess hve niðursveiflan er djúp,“ segir Ingólfur. „Lækkun fasteignagjalda mun hjálpa til við að draga úr þessari djúpu niðursveiflu, verja fyrirtæki og leiða til þess að atvinnurekendur geti haft fleiri í vinnu. Sveitarfélögin geta ekki verið stikkfrí í hagstjórninni. Allir þurfa að leggja hönd á plóg.“ 

Í fréttinni segir að samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins munu íslensk fyrirtæki greiða rúmlega 1% af landsframleiðslu í fasteignaskatta til sveitarfélaga á þessu ári en til samanburðar hafi skattheimtan verið ríflega 0,7% fyrir fimm árum.

Sveitarfélög ættu að lækka fasteignaskatta og fella niður gjalddaga

Einnig kemur fram í fréttinni að skattheimtan s jafnframt há í erlendum samanburði en hlutfallið sé að meðaltali tæplega 0,4% í iðnvæddum ríkjum. Ingólfur segir að það sé verkefni hins opinbera og Seðlabankans að draga úr niðursveiflunni og undirbyggja viðspyrnu hagkerfisins með því að draga úr álögum, auka útgjöld, lækka stýrivexti og auka útlánagetu bankakerfisins. „Sveitarfélög eru stór þáttur af umsvifum hins opinbera. Þau þurfa að aðstoða heimili og fyrirtæki við að takast á við efnahagsáfallið. Hærri fasteignaskattar gera hið gagnstæða,“ segir hann og nefnir að almennt sé leitast við að draga úr álögum í niðursveiflu. Ingólfur segir að sveitarfélögin hagi sér með þveröfugum hætti í þessari skattheimtu.„Sveitarfélögin ættu nú að lækka fasteignaskatta og fella niður gjalddaga til að mæta efnahagssamdrættinum.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 5. júní 2020.

Frettabladid-05-06-2020-2-