Bregðast þarf við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segja bæði í Bítinu á Bylgjunni mikilvægt að bregðast við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði. Sigurður segir meðal annars í viðtalinu að húsnæðismálin séu flókin því margir aðilar komi að þeim. Sveitarfélögin séu með lóðirnar, ríkið setji lögin og byggingarmarkaðurinn sjái um uppbyggingu að mestu leyti. Hann segir að það vanti meiri samhæfingu og að ríkið skorti úrræði til að tryggja samhæfingu. Sveitarfélögin telji sig standa sig vel í lóðaframboði og uppbyggingu en samanlagt sé það sem þau bjóða ekki nægilegt til að mæta eftirspurn. Hann segir stóra vandamálið vera að það vanti íbúðir. Það sé nóg til af landi og það þurfi að endurskoða vaxtamörk sveitarfélaganna því fólksfjölgun hafi verið miklu hraðari en áætlað hafði verið. Þá kemur fram í máli hans að í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu sé allt frosið á markaði og íbúðakeðjur í uppnámi. Hann segir skrítið að það sé ekki komin útfærð lausn á þessum vanda. Ríkisstjórnin hafi tilkynnt í síðustu viku að það væri von á lausn en hún sé ekki enn komin. „Hver dagur telur mjög þungt.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.
Bylgjan / Vísir, 6. nóvember 2025.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

