Bregðast þarf við þungu skipulagsferli og lóðaskorti
Til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði þarf að ganga enn lengra. Skipulagsferlið getur verið þungt í vöfum, tekið of langan tíma og það er lóðarskortur. Við því ætlum við að bregðast. Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, meðal annars í ávarpi sínu á Útboðsþingi SI, sem var í beinu streymi frá Húsi atvinnulífsins í dag. Sigurður Ingi sagði ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að hraða skipulagsferlum. „Við þurfum að samræma og samtvinna skipulagsmál við húsnæðismálin og horfum til Norðurlandanna í þeim efnum. Með samstilltu átaki, þar sem skipulagsmálin eru samþætt við húsnæðismálin verður unnt að tryggja blandaðar lausnir fyrir ólíkar þarfir fólks. Ríkið ber ábyrgð á að einfalda regluverk en sveitarfélög þurfa að tryggja skjóta afgreiðslu. Þetta er jú samfélagslegt verkefni þar sem einnig verður lögð áhersla á félagslegar aðgerðir í gegnum almenna íbúðakerfið.“
Skapa umhverfi þar sem traustir innviðir eru til staðar um land allt
Í ávarpi sínu sagði Sigurður Ingi einnig að frá því að þegar hann byrjaði í stjórnmálum hafi sú hugmyndafræði að hafa val um búsetu verið eitt af hans hjartans málum, að fólk sem velji sér búsetu óháð vinnu geti fengið jafna og góða þjónustu á sama verði og að samfélagið uppfylli þær þarfir sem þykja sjálfsagðar. „Við búum í strjálbýlu landi og tökumst á við þær áskoranir að jafna tækifæri almennings sem leiðarljós. Verkefni okkar er að skapa umhverfi þar sem traustir innviðir eru til staðar um land allt. Efnislegir og samfélagslegir sem þurfa að taka mið af ólíkum þörfum og stuðla að jafnvægi á milli kynja og kynslóða.“
Innviðauppbygging er ekki kostnaður heldur fjárfesting
Þá sagði Sigurður að samstarf stjórnarflokkanna hafi nú staðið á fimmta ár. „Í upphafi samstarfsins lögðum við áherslu á að hraða þyrfti framkvæmdum í innviðum landsins, sem voru margir orðnir lúnir eftir áralangt tímabil of lítillar fjárfestingar. Við þetta var staðið og gott betur, fjármagn til nýframkvæmda, þjónustu og viðhalds var stóraukið og brýnum framkvæmdum var flýtt um land allt.“ Hann sagði að hér áður fyrr hafi oft verið litið á fjármagn til samgönguframkvæmda sem sokkinn kostnað í bókhaldi ríkisins. Hver króna sem hafi farið í samgönguframkvæmdir kæmi út sem króna í halla á ríkissjóði. Nú sé þetta sem betur fer breytt. „Innviðauppbygging er ekki kostnaður fyrir samfélagið, heldur fjárfesting. Innviðir þurfa að vera skilvirkir og haldast í hendur við þarfir samfélagsins með góðum samgöngum og fjarskiptatengingum. Nýframkvæmdir og viðhald stuðla að víðtækum framförum með fækkun slysa, þróun atvinnuvega og bættum búsetugæðum. Skilvirkir innviðir auðvelda og bæta samvinnu og samstarf innan og milli landshluta.“
Hlutfall viðhalds og nýframkvæmda af landsframleiðslu fer hækkandi
Sigurður Ingi sagði í ávarpi sínu að álag á vegi landsins hafi að öllu jöfnu aukist, þó tímabundið hafi það minnkað vegna heimsfaraldurs. Hann sagði að ferðamönnum muni áfram fjölga og fólk ferðist meira til og frá vinnu búsetu sinnar vegna. Þá hafi hlutfall af landsframleiðslu til viðhalds og nýframkvæmda farið hækkandi. Hann sagði að fjárfesting í vegaframkvæmdum, flugvöllum og höfnum hafi aldrei verið jafnmikil og nú. „Umbreytingarnar eru þegar orðnar ljósar á umferðaþyngstu vegunum og landsmenn eru að upplifa stórkostlegar framkvæmdir sem stuðli að auknu umferðaröryggi og vinnur gegn samdrætti í hagkerfinu.“
970 milljarðar króna heildarumsvif samgönguáætlunar til 2034
Í ávarpi Sigurðar Inga kom fram að heildarumsvif sem samgönguáætlun (2020-2034) boði sé um 970 ma. kr. til ársins 2034. Eftir tólf ár, sem líði fljótt, verði búið að aðskilja akstursstefnur á stofnvegum út frá höfuðborgarsvæðinu, austur að Hellu, upp í Borgarnes, suður í Leifsstöð, klára umfangsmiklar framkvæmdir á Vestfjörðum, stækka lykilhafnir hringinn í kringum landið eins og í Þorlákshöfn, á Ísafirði, Njarðvíkurhöfn og á Sauðárkróki, byggja stærri flugstöð á Akureyri og flughlað, styrkja aðra innanlandsflugvelli, útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt, stytta hringveginn og loks rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar með Fjarðarheiðagöngum svo nokkur stór verkefni séu nefnd.
Jarðgangaframkvæmdir verði stöðugt í gangi
Þá sagði Sigurður Ingi að unnið væri að undirbúningi jarðgangaáætlunar og sé horft til þess að stofnað verði opinbert félag um jarðgangagerð. Markmiðið sé að þegar einum göngum sleppir hefjist framkvæmdir við önnur göng, þannig að jarðgangaframkvæmdir verði stöðugt í gangi – a.m.k. ein göng í gangi á hverjum tíma.
Samvinnuleið til að flýta og stuðla að þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu
Sigurður Ingi sagði að í nokkrum afmörkuðum stærri framkvæmdum sé uppbygging innviða fjármögnuð með samvinnuleið, PPP. Það sé fyrst og fremst gert til að flýta og stuðla að þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu en ekki síður sé það liður í því að laga tekjustofna ríkisins vegna samgangna að orkuskiptum. Hann sagði Vegagerðina vinna að því að útfæra nokkrar stórar framkvæmdir með fjársterkum aðilum sem hafi áhuga á að fjárfesta í innviðum landsins. Þessi leið sé vel þekkt frá Hvalfjarðagangamódelinu. „Samvinnuleið í vegaframkvæmdum er sameiginlegt verkefni okkar allra þar sem hið opinbera og fjárfestar koma sameignlega að borðinu og finna leiðir þar sem kostnaði er haldið í lágmarki og fullur aðgangur er að þekkingu. Útboðsferilinn er með öðru sniði, haldnir eru kynningarfundir, markaðssamtöl og samningaferli. Ef horft er til Norðurlandanna hafa þessi verkefni oftar en ekki komið vel út, hvort tveggja hvað varðar kostnað og tímamörk. Með samvinnuleið munum við reisa nýja brú yfir Hornafjarðarfljótið, nýjan Axarveg og nýja brú yfir Ölfusá.“ Þá kom Sigurður Ingi inn á Sundabraut og sagði það vera risavaxið verkefni. „Sundabrautarverkefnið er loksins komið í traustan farveg. Sundabrautin verður sennilega stærsta einstaka innviðaverkefni Íslandssögunnar, fyrir utan kannski Kóngsveginn. Nýjustu kostnaðaráætlanir gera ráð fyrir að kostnaður geti numið á bilinu 69-83 ma. kr., eftir því hvort Kleppsvík verður þveruð á brú eða í göngum. Með öðrum orðum, heildarfjárfesting með samvinnuleið gæti orðið á bilinu: 110 til 135 ma. kr.“
Hann sagði að á höfuðborgarsvæðinu væri síðan verið að fara í um 120 milljarða innviðafjárfestingu á almenningssamgöngum á grundvelli höfuðborgarsáttmála ríkis og sveitarfélaganna á svæðinu. Þar séu risavaxin útboð fyrirhuguð, á borð við stokkanna undir Sæbraut og Miklubraut, Arnarnesveg og gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Þar við bætist fjöldinn allur af „minni“ en engu síður afar mikilvægum verkefnum. Sigurður Ingi sagði dæmi um það vera átak í lagningu bundins slitlags á tengivegi sem gegni mikilvægu hlutverki víða um land í að tengja dreifbýlli svæði við stofnvegakerfið. Um þessa vegi ferðist börn á skólaaldri dag hvern með skólaakstri. Hann agði að á þessum svæðum leynist einnig mikil tækifæri meðal annars í þróun ferðaþjónustu. Slæmir og holóttir malarvegir haldi aftur af slíkum tækifærum auk þess sem umferðaröryggi á þeim sé víða óviðunandi.
Eftirspurn og framboð á húsnæðismarkaði haldist í hendur
Sigurður Ingi sagði að til að fólk hafi raunverulegt val verði að vera jafnvægi á húsnæðismarkaði. Eftirspurn og framboð verði að haldast í hendur en það hafi reynst áskorun fyrir ríki og sveitarfélög að bregðast við skyndilegum breytingum á einstökum svæðum. Skortur af húsnæði hafi leitt til þenslu á húsnæðismarkaði með fordæmalausum verðhækkunum og hafi víðtæk áhrif í hagkerfinu. „Húsnæðismarkaðurinn er eins og stórt púsluspil þar hver aðili gegnir sínu hlutverki. Stjórnvöld tóku á sínum tíma mikilvægt skref með sameiningu tveggja stofnana í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Samtök iðnaðarins hafa sýnt frumkvæði síðustu ár með því að varpa ljósi á fjölda nýbygginga. Yfirsýn hafði lengi skort um heildarumfang íbúða á byggingarstigi. Í nóvember opnaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun síðan glæsilega mannvirkjaskrá sem inniheldur nákvæmar og áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirki á Íslandi og stöðu á húsnæðismarkaði. Sveitarfélögin eru síðan farin að stað með húsnæðisáætlanir og þar með geta byggingaraðilar betur skipulagt sig.“ Þá sagði Sigurður að áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verði samþættar og lagðar fram samhliða og þannig tryggt að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags og skapi sjálfbær hverfi og sjálfbærar byggðir sem mæti þörfum fólks. „Breytingar í stjórnsýslunni munu endurspegla nýjar áherslur og verða húsnæðis- og skipulagsmál framvegis í nýju innviðaráðuneyti. Frekari útfærslur verða kynntar síðar.“
Verður miklu meira að gera en verið hefur hingað til
Í lokaorðum sínum sagði Sigurður Ingi meðal annars að það mundi mæða mikið á félagsmönnum í Félagi vinnuvélaeigenda og Mannvirkis – félagi verktaka. „Það verður miklu meira að gera en verið hefur hingað til. Þessi miklu umsvif munu hafa mikil áhrif á þjóðarhag. Það skiptir miklu að framkvæmdir standist tímaáætlanir. Því fyrr sem innviðir komast í notkun, þeim mun fyrr skila þeir þjóðfélagslegum ábata. Það skiptir miklu að vandað verði til verka. Það hefur áhrif á viðhalds- og þjónustukostnað til framtíðar. Og vitanlega skiptir það máli fyrir ríkissjóð að skynsamlega sé boðið í verkið, það eykur svigrúm okkar til þess að halda stefnu eða bæta mögulega í. Við verðum að tryggja að hægt sé að auka umsvifin án þess að tilboð í verk rjúki upp og verði óaðgengileg. Við erum að feta nýjar slóðir – það er mikilvægt að allir leggi sig fram til að vel takist til með samvinnuleiðarverkefnin.“
Hér er hægt að nálgast upptöku Útboðsþings SI 2022: