Fréttasafn



1. júl. 2021 Almennar fréttir Menntun

Bregðast verður við auknum áhuga á iðn- og starfsmenntun

Rætt er við Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, verkefnastjóra í menntamálum hjá SI, í fréttum RÚV um það lúxusvandamál að skólarnir ráði ekki við þann mikla fjölda sem sækist eftir iðn- og starfsnámi. Í fréttinni kemur fram að átak undanfarinna ára að hvetja nemendur til að velja iðnnám hafi skilað árangri. Áhuginn sé það mikill að ljóst sé að margir fá ekki skólavist í haust. Þannig þarf að vísa frá um 700 umsóknum í Tækniskólanum.

„Atvinnulífið hefur kallað eftir því að fleiri útskrifist úr þessu námi, iðn- og starfsnámi, lengi og menntamálaráðherra hefur verið mjög skýr með það að setja iðn- og starfsmenntun í forgang,“ segir Jóhanna Vigdís. Hún segir að samtökin fagni þeim umbótum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum í iðn- og starfsnámi, sérstaklega reglugerð um vinnustaðanám og breytingar á háskólalögum. „Þetta er líka meðal annars ástæðan fyrir því eflaust að þessi aukna aðsókn er sem við erum að sjá núna.“ 

Skólarnir segi til á hverju strandar að taka á móti fleiri nemendum

Hún segir að sjálfsögðu þurfi að fylgja fjármagn öllum svona breytingum. „En skólarnir þurfa þá líka að segja til á hverju það strandar að taka á móti fleiri nemendum. Ef það vantar fjármagn þá þarf að liggja fyrir í hvað á að nota það.“

Í fréttinni kemur fram að hún spyrji hvort fjölga eigi starfsfólki, stækka húsnæði, auka við tækjabúnað eða hvort þurfi meira fjármagn í efniskostnað. „Þetta þarf allt saman að liggja fyrir svo það sé hægt að koma þessum aukna fjölda að sem síðan skilar sér út í atvinnulífið. Það er mikill hörgull á fólki með iðn- og starfsmenntun.“

Jóhanna Vigdís segir í fréttinni að áhuginn sé gleðilegur. „Það er búinn að vera svo mikill ímyndarvandi og það hefur vantað að krakkarnir hafi áhuga á þessu. En núna er áhuginn kominn og nú þurfum við bara að bregðast við.“ 

RÚV, 30. júní 2021.