Fréttasafn18. des. 2017 Almennar fréttir Menntun

Breyta lögum hið snarasta svo iðnnám verði nám í skilningi laga

Fyrirheit í stjórnarsáttmála um eflingu iðnnáms eru lofsverð en meira þarf til. Orð nýs menntamálaráðherra um eflingu iðn- og verknáms og þau áform að efnt verði til meira samstarfs við atvinnulífið þar sem mikill skortur er á ákveðinni menntun lofa góðu. Vekur það von um að raunverulegra breytinga sé að vænta. Það er þarft enda verður alltaf þörf fyrir iðnmenntað fólk þrátt fyrir tækniframfarir og breytingar í samfélaginu. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Morgunblaðinu um helgina sem ber yfirskriftina „Iðnnám er nám“.

Í grein sinni segir Sigurður jafnframt að fyrsta mál sem Alþingi afgreiðir á þessu þingi hljóti að vera breytingar á útlendingalöggjöfinni þannig að iðnnám sé talið nám en einhverra hluta vegna sé iðnnám ekki nám í skilningi laganna og þess vegna standi til að vísa iðnnema úr landi. „Það skýtur skökku við á sama tíma og skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki. Frumvarp um málið er komið fram á Alþingi en afgreiða þarf málið hið snarasta. Þetta mál er áminning um það að virðingu fyrir iðnnámi þarf að efla, ekki síður en námið sjálft.“

Þá segir Sigurður að góð fyrirheit hafi verið gefin um að þessu yrði kippt í liðinn um leið og þingið kæmi saman. „Nú er ekkert að vanbúnaði að breyta lögunum hið snarasta og standa við þau orð sem sögð voru. Það gengur ekki að nám í skilningi laganna sé eingöngu nám á háskólastigi. Auka þarf veg og virðingu iðnnáms og þessi breyting er liður í því.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.