Breytingar á námi í prent- og miðlunargreinum
Skólameistari Tækniskólans Hildur Ingvarsdóttir, formaður GRAFÍU Georg Páll Skúlason og stjórnarformaður Prentmet Odda og fulltrúi SI í starfsgreinaráði Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir hafa skrifað undir yfirlýsingu um að vinna í sameiningu að þróun og breytingum á námi í prent- og miðlunargreinum.
Í tilkynningu kemur fram að skrifað hafi veirð undir samstarfsyfirlýsinguna í nýju húsnæði greinanna í Vatnsholti. Á sama tíma hafi staðið yfir glæsileg útskriftarsýning nemenda í grafískri miðlun og prentun og því gott tilefni til að fagna. Markmið breytinganna sé að fjölga nemendum í prent- og miðlunargreinum og auka fagþekkingu til framtíðar.
Þá kemur fram að helstu breytingar sem stefnt sé að sé að sameina allar faggreinar prent- og miðlunargreina undir einu starfsheiti, Grafískur miðlari. Nemendur fái sama grunn en velji svo áherslu á prentun, prentsmíði eða bókband, sem þjálfist svo enn frekar á vinnustað. Nemendur sem taki sveinspróf í faginu öðlast réttindi til að starfa í grafískum greinum og tækifæri til þess að sérhæfa sig á því sviði sem þeir kjósi. Með fyrirhuguðum breytingum sé brugðist við þörf atvinnulífsins fyrir meiri fagþekkingu og hæfni til þess að starfa á breiðara sviði í prentgreinum. Einnig segir að stefnt sé að því að ný námsskrá verði tilbúin haustið 2025.
Á myndinni eru, talið frá vinstri, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, Hildur Ingvarsdóttir og Georg Páll Skúlason.