Fréttasafn3. maí 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Breytt regluverk um steypu opnar fyrir grænar vistvænar lausnir

Breytt regluverk um steypu var kynnt á fundi innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð (112/2012) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Umsögn eða ábendingar er hægt að skila inn  til og með 16. maí. Með fyrirhuguðum breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar er opnað fyrir grænar vistvænar lausnir og margvíslega möguleika til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framsögu á fundinum höfðu Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Hermann Jónasson, forstjóri HMS, Þóra Margrét Þorgeirsdóttir,  teymisstjóri nýsköpunar hjá HMS, og Guðbjartur Jón Einarsson, deildarstjóri viðhalds- og aðstöðuþjónustu hjá Framkvæmdasýslu Ríkiseignum. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í umræðum að framsöguerindum loknum ásamt Þorsteini Víglundssyni, forstjóra Hornsteins, Sigríði Ósk Bjarnadóttur, dósent við umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, Gylfa Gíslasyni, framkvæmdastjóra Jáverks, og Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt hjá s. ap arkitektum.

Á fundinum kom fram að mati HMS megi áætla að breytingar á regluverki geti haft þau áhrif að um 20-30% samdráttur verði á losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar á steypu og um 6% samdráttur á losun vegna byggingariðnaðarins í heild. Með nýjum reglum eru auknir möguleikar fyrir framleiðendur að nota fjölbreyttari efni í steypublöndur en hingað til hefur verið heimilað. Þannig er til dæmis heimiluð notkun endurunninna steinefna. Gerð er krafa um prófunaraðferðir á steinefnum til að takmarka áhættu á alkalískemmdum í steypu en líka til að tryggja endingu hennar og að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar á líftíma mannvirkis.

Á vef Stjórnarráðsins er eftirfarandi haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra: „Tillögur að nýju regluverki um steypu í byggingarreglugerð marka tímamót. Með breyttri notkun á steypu og tækninýjungum verður hægt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda umtalsvert án þess að slakað verði á kröfum um öryggi og gæði. Einnig koma breytingarnar til móts við hækkandi heimsmarkaðsverð á sementi og stuðla því að lægra byggingarverði.“ 

Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: „Núgildandi ákvæði um steypu í byggingarreglugerð eru óumhverfisvæn og var þarft að uppfæra kaflann til samræmis við gildandi Evrópustaðla. Nýjar tillögur koma til móts við fyrirsjáanlegan skort á sementi en ekki síður kröfur markaðarins um grænar lausnir. Tillögurnar hafa verið unnar með þátttöku fremstu sérfræðinga landsins í steypugerð og notkun.“  

Nánar á vef HMS.

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum:

https://vimeo.com/705403974


Fundur-mai-2022Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í umræðum að erindum loknum.