Breyttur veruleiki í iðnaðarnjósnum og netöryggi
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um netöryggi og hættuna á iðnaðarnjósnum þar sem m.a. er stolið viðskiptahugmyndum og hugverki. Sigurður segir að netöryggi varði þjóðaröryggi og það sé einfaldlega breyttur veruleiki þegar komi að öryggismálum í hinum stafræna heimi. Hann segir þetta vera raunverulega ógn og vaxandi ógn í heiminum og að öll ríki séu meira og minna að leiða hugann að því og grípa til aðgerða til þess að auka öryggi. „Við erum hluti af Evrópu og evrópsku regluverki og þar er verið að innleiða tilskipanir til þess að bæta úr sem við munum þá auðvitað innleiða. Þetta er oftar en ekki skipulögð glæpastarfsemi. Þetta geta verið svik, oft sem beinist að almenningi en síðan geta þetta líka verið innbrot í heilu tölvukerfin.“
Mörg dæmi um tölvuárásir hér á landi
Sigurður segir að iðnaðarnjósnir séu þegar brotist sé inn í þeim tilgangi að komast yfir viðkvæmar upplýsingar. „Til að hagnýta einhver viðskiptaleyndarmál eða eitthvað slíkt til að hagnýta þá í viðskiptalegum tilgangi. Við höfum mörg dæmi hér á landi um tölvuárásir. Það er þannig að á hverjum einasta degi er fjöldi tölvuárása en sem betur fer þá misheppnast þær langflestar en sérfræðingar verða varir við þær.“
Öflug fyrirtæki og sérfræðingar
Sigurður segir að svo geti það komið fyrir í einstaka tilvikum að árásirnar takast. „En sem betur fer þá eru hér mjög öflug fyrirtæki og öflugir sérfræðingar sem starfa á þessu sviði sem bæði hjálpa til varðandi forvarnir og setja upp öflug kerfi til að koma í veg fyrir þetta og svo líka að hjálpa til ef að árásir takast. Því það getur tekið langan tíma að koma tölvukerfinu í lag. Það þarf að byggja það upp frá grunni og endurheimta gögn og þar fram eftir götunum.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.
Bylgjan, 10. júní 2024.